FA andmælir fjölgun útboða á tollkvótum fyrir búvörur

05.01.2017

Innfluttar-skinkurAtvinnuvegaráðuneytið hefur hrint í framkvæmd þeirri tillögu starfshóps landbúnaðarráðherra, sem skipaður var í apríl síðastliðnum, að bjóða upp tollkvóta á búvörum oftar en einu sinni á ári.  Bændasamtök Íslands höfðu mjög þrýst á að þessi breyting yrði gerð, en hún skaðar hagsmuni bæði innflytjenda og neytenda. Félag atvinnurekenda hefur mótmælt ákvörðuninni en ráðuneytið hyggst sitja við sinn keip. Breytingin er líkleg til að stuðla að hækkun á verði innfluttra búvara.

FA gagnrýndi á sínum tíma harðlega skipan og tillögur starfshópsins, en hann var settur á fót til að gera tillögur um hvernig mætti bregðast við samningi Íslands og Evrópusambandsins um lækkun tolla á landbúnaðarvörum. Í hópnum áttu sæti fulltrúar ríkisins, landbúnaðarins og annarra innlendra framleiðenda en hvorki fulltrúar innflytjenda búvara né neytenda voru kallaðir að borðinu. Enda gengu tillögur hópsins aðallega út á það hvernig mætti hafa aftur af neytendum þann ávinning, sem felst í samningnum við ESB.

Tollkvótar eru heimild til að flytja inn til landsins takmarkað magn af búvörum á engum eða lægri tollum en almennt gilda. Áður voru tollkvótar samkvæmt samningi Íslands við Alþjóðaviðskiptastofnunina, WTO, boðnir upp til tólf mánaða í senn, frá 1. júlí til 30. júní, og tollkvótar samkvæmt samningi Íslands og ESB fyrir almanaksárið. Nú hefur ráðuneytið ákveðið að í báðum tilfellum gildi kvótarnir aðeins fyrir fyrri helming almanaksársins, frá janúar til júní, eins og fram kemur í tilkynningum frá ráðuneytinu, sjá hér og hér.

FA andmælti fjölgun útboða og styttingu gildistíma
Í tölvupósti til ráðuneytisins 22. nóvember síðastliðinn andmælti FA tillögu ráðgjafanefndar um inn- og útflutning á landbúnaðarvörum um styttingu gildistíma tollkvóta, með eftirfarandi rökum:

– Erfiðara verður fyrir innflytjendur að skipuleggja innflutning og birgðahald. Þetta mun bitna á fyrirsjáanleika í rekstri og afhendingaröryggi gagnvart verslunum og veitingahúsum. Nógu erfitt hefur verið að tryggja slíkt í núverandi kerfi. Afleiðingarnar verða þveröfugar við það sem fram kemur í rökstuðningi nefndarinnar, að tryggja eigi „jafnara flæði vara inn á íslenskan markað.“

– Styttra tímabil eykur hættu á að kvótar fullnýtist ekki og magn sem innflytjendur hafa greitt fyrir fyrnist. 

– Tíð uppboð þýða meira umstang og kostnað fyrir innflytjendur og hærra verð á tollkvótunum. Hvort tveggja mun koma fram í endanlegu verði til neytenda.

„FA telur þessa tillögu nefndarinnar fjandsamlega bæði innflytjendum búvöru og neytendum og leggst eindregið gegn því að ráðherra samþykki hana. Félagið hvetur til þess að tollkvótum verði úthlutað til árs í senn eins og tíðkast hefur,“ sagði í tölvubréfi FA. 

Ráðuneytið segir innflytjendum hvað þeim sé fyrir bestu
Svar barst með bréfi frá ráðuneytinu 20. desember síðastliðinn. Þar kemur eftirfarandi fram: „Að baki ákvörðuninni liggja þau rök að þörf er á að tryggja jafnara flæði innfluttra vara á íslenskan markað og draga þar með úr mögulegum árstíðasveiflum í innflutningi. Telur nefndin [að] þetta fyrirkomulag ætti að vera innflytjendum, framleiðendum og neytendum til hagsbóta.

Nefndin bendir ennfremur á að með fyrirkomulaginu er[u] tilboðsgjöfum gefin fleiri tækifæri til að bjóða í tollkvóta og sníða tilboð betur að árstíðabundinni eftirspurn. Þeir þurfa því ekki að bjóða í heilsárskvóta ef eftirspurn viðskiptavina þeirra er aðeins á seinni hluta ársins eða bíða heilt ár eftir nýrri úthlutun verði tilboði þeirra ekki tekið. Tækifærum til að fá úthlutað tollkvóta fjölgar. Þá ætti breytingin að draga úr fjárbindingu innflutningsaðila vegna fyrirframgreiðslu á tollkvótanum.“

Niðurstaðan er því sú að nefndin stendur við tillögu sína og landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hefur farið að henni.

FA krefst rökstuðnings og gagna
Félag atvinnurekenda sættir sig ekki við þessa niðurstöðu og hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu erindi, þar sem fram kemur að FA beri brigður á rökstuðning nefndarinnar og geti, sem hagsmunasamtök margra innflytjenda búvara, staðfest að nýtt fyrirkomulag sé ekki til hagsbóta fyrir innflytjendur, heldur til verulegs tjóns.

Í bréfi FA er óskað eftir eftirfarandi rökstuðningi, með vísan til ákvæða stjórnsýslulaga:

  • hvaða gögn og rannsóknir á hagsmunum aðila lágu fyrir áður en umrædd ákvörðun var tekin?
  • við hvaða aðila var haft samband áður en umrædd ákvörðun var tekin?
  • hvaða aðilar lögðu það til við ráðuneytið að umrædd breyting ætti sér stað?
  • hvaða rannsóknir fóru fram á röskun á réttmætum væntingum þeirra aðila sem kerfið tekur til um að njóta áfram sama starfsumhverfis?

Jafnframt er óskað eftir eftirfarandi gögnum með vísan til ákvæða upplýsingalaga:

  • afriti af öllum vinnugögnum, þ.m.t. útreikningum, fundargerðum og öðrum skjölum sem snerta framangreinda ákvörðun.
  • samskipti aðila við ráðuneytið og samskipti ráðuneytisins við aðila er snerta umrædda ákvörðun.

Ráðuneytið dregur taum innlendra framleiðenda
„Stjórnsýsla ráðuneytisins hvað varðar innflutning landbúnaðarvara er því miður öll á einn veg; taumur innlendra framleiðenda er dreginn, á kostnað innflytjenda. Við fengum staðfest á fundi með Bændasamtökum Íslands 20. janúar í fyrra að þau hygðust þrýsta á um þessa breytingu, að bjóða tollkvótana upp oft á ári. Það var varla gert af umhyggju fyrir hag innflytjenda búvöru,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Ráðuneytið telur sig þess umkomið að segja innflytjendum hverjir þeirra hagsmunir séu, án þess að hafa aflað um það upplýsinga.“

Bréf atvinnuvegaráðuneytisins til FA 20. desember 2016

Bréf FA til atvinnuvegaráðuneytisins 2. janúar 2017

Grein Ólafs Stephensen í Fréttablaðinu / Vísi

Nýjar fréttir

Innskráning