FA dregur lagastoð fyrir takmörkun á notkun skyndigreiningarprófa í efa

23.08.2021
Sjálfspróf vegna COVID-19

Félag atvinnurekenda dregur í efa að stoð sé í sóttvarnalögum fyrir því að banna eða takmarka sölu og notkun á skyndigreiningarprófum eða sjálfsprófum vegna COVID-19 veirunnar. Félagið hefur sent heilbrigðisráðuneytinu erindi, þar sem farið er fram á skýr svör um afstöðu ráðuneytisins til lögmætis sölu og notkunar á skyndigreiningarprófum.

Vaxandi áhugi er að á að nýta skyndigreiningarpróf, sem fólk framkvæmir jafnvel sjálft, til að kanna hvort viðkomandi er smitaður af kórónuveirunni. Lyfjabúðir hafa ekki fengið svör við fyrirspurnum til heilbrigðisráðuneytisins um hvort þeim sé heimilt að selja slík próf. Innflytjendur skyndigreiningarprófa hafa fengið leyfi fyrir sölu þeirra, en heilbrigðisráðuneytið sett það skilyrði að prófin séu notuð undir eftirliti og á ábyrgð rannsóknarstofu með starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 415/2004.

Í bréfi FA til ráðuneytisins er rifjað upp að atvinnufrelsi og athafnafrelsi fyrirtækja og einstaklinga sé veitt rík vörn í stjórnarskránni. „Í þeirri vörn felst m.a. að þetta frelsi verði ekki skert nema með skýrum ákvæðum í settum lögum sem auk þess verða að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Í ljósi þessa er ljóst að bann við innflutningi, sölu og notkun skyndigreiningarprófa fyrir COVID-19 verður að byggja á ákvæðum settra laga þar sem skýrlega er mælt fyrir um þá frelsistakmörkun sem til stendur að framfylgja. Þarna dugar ekki til að settar séu reglugerðir eða birtar séu auglýsingar án þess að fyrir þeim sé skýr efnisleg og sértæk lagastoð sem tekur til þeirrar takmörkunar sem hin lægra setta réttarheimild mælir fyrir um,“ segir í bréfi lögfræðings FA.

FA spyr m.a. hvort auglýsing 150/2021, sem inniheldur ákvæði um skyndigreiningarpróf, bindi aðra en heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn. Jafnframt er spurt hvort ráðuneytið telji að skilyrði áðurnefndrar reglugerðar, um að próf megi aðeins gera undir eftirliti rannsóknarstofu með starfsleyfi, eigi sér stoð í sóttvarnalögum.

FA spyr hvort ráðuneytið telji að í gildi sé bann við því að einstaklingar noti skyndigreiningarpróf við COVID-19, ef það er ekki gert undir eftirliti og á ábyrgð rannsóknastofu. „Ef svo, á hvaða lagagrunni, sem lýst er að ofan, byggir sú takmörkun á athafnafrelsi einstaklinga?“ segir í bréfi félagsins.

Loks er spurt: „Telur ráðuneytið að óheimilt sé að selja slík skyndigreiningarpróf til almennings, t.d. í verslunum og lyfjabúðum?“

Erindi FA til ráðuneytisins

Umfjöllun á vef RÚV

Nýjar fréttir

Innskráning