FA fær aðgang að gögnum ráðuneytis

04.02.2015

b88fab67ec7ff0932Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur úrskurðað að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu beri að afhenda Félagi atvinnurekenda aðgang að gögnum og fundargerðum ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara vegna tillögu nefndarinnar til ráðherra um að gefa út opinn innflutningskvóta á ógerilsneyddri, lífrænni mjólk vorið 2014. Mjólkurbúið Kú hafði óskað eftir kvótanum þar sem slíkt hráefni var ekki í boði á innanlandsmarkaði.

FA óskaði eftir gögnunum sem lögbundinn umsagnaraðili um tillögur og ákvarðanir nefndarinnar. Félagið taldi að til að geta rækt sitt lögbundna hlutverk, að gæta mikilvægra hagsmuna aðildarfyrirtækja sinna varðandi innflutning á búvörum, yrði það að hafa aðgang að gögnum nefndarinnar.

Ráðuneytið hafði fallist á að afhenda FA hluta þeirra gagna, sem um ræddi, samtals um 30 skjöl, en neitaði að afhenda önnur, sem haldið var fram að innihéldu upplýsingar um viðskiptakjör og vörðuðu viðskiptahagsmuni aðila.

Aðilar málsins, Mjólkurbúið Kú og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, sáu raunar ekkert að því að gögnin yrðu afhent, en Eimskipafélagið lagðist gegn því að upplýsingar um tilboð sem Kú var gert í flutninga yrðu afhentar. Úrskurðarnefndin taldi ekki að þar væru þeir hagsmunir í húfi að þeim væri hætta búin þótt FA fengi aðgang að gögnunum. Var því lagt fyrir ráðuneytið að afhenda níu fundargerðir ráðgjafarnefndarinnar, auk fjögurra tölvupósta og tilboðs Eimskips.

„Félag atvinnurekenda fagnar þessari niðurstöðu og telur að með henni sé gefið mikilvægt fordæmi um að stjórnsýsla ráðgjafarnefndarinnar verði gegnsærri þegar fjallað er um beiðnir fyrirtækja um innflutningskvóta á búvörum á grundvelli skorts á þeim innanlands,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Sá fjöldi gagna sem er undir í þessu máli sýnir hins vegar hversu flókið og þungt ferlið er, sem fyrirtæki þurfa að ganga í gegnum til að fá jafnsjálfsagðar heimildir.“

Úrskurður úrskurðarnefndarinnar

Nýjar fréttir

Innskráning