FA fagnar áliti Samkeppniseftirlitsins – hvetur félagsmenn til að sýna stóru skipafélögunum aðhald

04.09.2023

Félag atvinnurekenda fagnar áliti Samkeppniseftirlitsins, sem birt var á föstudag, og tekur eindregið undir þau tilmæli sem þar eru sett fram til opinberra aðila um að grípa til ráðstafana til að draga úr samkeppnishindrunum á flutningamarkaði. FA skorar á innviðaráðherra, Faxaflóahafnir, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög sem standa að rekstri hafna, að grípa til aðgerða í framhaldi af álitinu. Þá hvetur FA félagsmenn sína, sem eru í viðskiptum við Eimskip og Samskip, til að taka til sín ábendingar Samkeppniseftirlitsins um að fyrirtækin kalli í hverju tilviki eftir skýringum á fjárhæð einstakra gjalda sem skipafélögin innheimta, þegar gengið er til samninga. Skipafélögin þurfa augljóslega á auknu aðhaldi viðskiptavina sinna að halda.

Brugðist við ábendingum FA
FA sendi Samkeppniseftirlitinu erindi í síðasta mánuði og benti þar á mikla óánægju félagsmanna sinna með sífelldar hækkanir á flutningskostnaði, ógegnsæjar verðskrár skipafélaganna og álagningu ýmiss konar aukagjalda. Þá benti félagið á þær samkeppnishindranir sem felast í því að í Sundahöfn er afgreiðslubúnaður og löndunaraðstaða í eigu stóru skipafélaganna tveggja og önnur skipafélög þurfa því að semja við keppinauta sína, vilji þau komast að í stærstu inn- og útflutningshöfn landsins.

FA fagnar því að undir þessi sjónarmið sé tekið í áliti SE, en einn meginþáttur tilmæla eftirlitsins er að stjórnvöld og hlutaðeigandi opinberir aðilar tryggi aðgengi nýrra og minni keppinauta í sjóflutningum að fullnægjandi hafnaraðstöðu og skipaafgreiðslu.

Á verðbólgutímum þarf að efla samkeppni
„Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Samskipa sýnir fram á að með ólögmætu samráði héldu stóru skipafélögin uppi verði á flutningum, sem hafði að sjálfsögðu áhrif á verð margs konar innfluttra vara,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Ófullnægjandi samkeppni á flutningamarkaði er áfram vandamál og þess vegna hefur sjaldan verið mikilvægara en nú á verðbólgutímum að grípa til ráðstafana til að efla samkeppnina og lækka verð, fyrirtækjum og neytendum til hagsbóta.“

Fyrirtækin veiti skipafélögunum aukið aðhald
Félagsmenn FA hafa löngum kvartað undan alls konar gjöldum sem skipafélögin leggja ofan á verð flutninga. Í áliti Samkeppniseftirlitsins eru nokkur slík talin upp og raktar vísbendingar um að þau hafi verið mun hærri en ástæða var til. „Í ljósi framangreindrar forsögu er eðlilegt að viðskiptavinir Samskipa og Eimskipa kalli í hverju tilviki eftir skýringum á fjárhæð einstakra gjalda sem innheimt eru, þegar gengið er til samninga. Er slík eftirfylgni til þess fallin að skapa aðhald gagnvart fyrirtækjunum, í ljósi þeirra atvika sem lýst er í ákvörðuninni,“ segir í áliti SE.

„Við tökum undir þessa hvatningu Samkeppniseftirlitsins og hvetjum félagsmenn okkar sem eru í viðskiptum við Eimskip og Samskip til að sýna þeim aukið aðhald,“ segir Ólafur Stephensen. „Hverjum sem les ákvörðun SE í máli Samskipa má vera ljóst að skipafélögin þurfa á auknu aðhaldi viðskiptavina sinna að halda.“

Viðtal við Ólaf Stephensen í fréttum RÚV
Viðtal við Ólaf í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni
Viðtal við Ólaf og Brynhildi Pétursdóttur framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna í Kastljósi RÚV

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning