FA fagnar frumvarpi ráðherra um innflutning á ferskvöru

21.02.2019

Félag atvinnurekenda fagnar frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sem heimilar innflutning á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk. Með samþykkt frumvarpsins lýkur loks um áratugarlöngum brotum íslenskra stjórnvalda á EES-samningnum. Frumvarpið tryggir hag neytenda af auknu vöruúrvali og samkeppni, innflutningsfyrirtækja af því að tæknilegar viðskiptahindranir séu afnumdar og íslenskra matvælaútflutningsfyrirtækja, einkum á sviði sjávarafurða, af því að réttur þeirra til útflutnings til EES-ríkja án heilbrigðiseftirlits á landamærum sé áfram tryggður.

„Íslensk stjórnvöld áttu engan annan kost en að afnema bannið við innflutningi á ferskvöru. Með því að fara ekki að dómum EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands væri gróflega brotið gegn réttaröryggi íslenskra fyrirtækja og gífurlegir hagsmunir íslenskra matvælaútflytjenda settir í uppnám,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Ábyrgðarleysi að hvetja til samningsbrota
Í greinargerð með frumvarpi ráðherra kemur skýrt fram að samið var um upptöku matvælalöggjafar Evrópusambandsins í EES-samninginn á sínum tíma til að tryggja hagsmuni íslensks sjávarútvegs af því að geta komið vöru sinni ferskri á markað í öðrum Evrópuríkjum án þess að hún þyrfti að sæta heilbrigðiseftirliti á landamærum með tilheyrandi umstangi, kostnaði og töfum. Ólafur segir að áframhaldandi brot Íslands á samningnum myndu stefna þessum hagsmunum í tvísýnu. „Þar er um milljarðahagsmuni að tefla. Ábyrgðarleysi þeirra, sem hvetja til áframhaldandi brota á samningnum, er mikið, meðal annars í þessu ljósi. Ísland á að fara að þeim alþjóðasamningum sem það hefur gert til að tryggja breiða hagsmuni, en ekki að láta undan þrýstingi sérhagsmunahópa,“ segir Ólafur.

Viðbótartryggingar minna íþyngjandi leið
Hann bendir jafnframt á að í greinargerð frumvarpsins komi skýrt fram að röksemdum sem Bændasamtök Íslands hafi teflt fram, um að hægt sé að semja við Evrópusambandið upp á nýtt á grundvelli 13. greinar EES-samningsins, hafi þegar verið hafnað af EFTA-dómstólnum. Þá hafi umleitunum stjórnvalda um að viðhalda frystiskyldu á innfluttu kjöti verið hafnað af hálfu ESB, en sambandið fallist á viðræður um ráðstafanir gagnvart áhættu á kamfýlóbakter-smiti í innfluttum alifuglaafurðum. „Þetta er einmitt sú leið sem sérfræðingar, sem unnu skýrslu fyrir FA um áhættu af innflutningi ferskvöru, bentu á,“ segir Ólafur. „Að leita eftir viðbótartryggingum vegna salmonellu og kamfýlóbakter er mun minna íþyngjandi leið til að tryggja matvælaöryggi en fortakslaust bann við innflutningi.“

Í skýrslu Food Control Consultants, sem unnin var fyrir FA, er meginniðurstaðan sú að ekki séu haldbær rök fyrir því að innflutningur á ferskum eggjum, vörum úr ógerilsneyddri mjólk og fersku kjöti muni hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og heilsufar dýra. Ekki virðist heldur hægt að fullyrða að innflutningur á þessum vörum muni hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþolinna baktería. Aukinn fjöldi fólks sem ferðast til og frá landinu virðist líklegri til að hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþols en innflutningur á matvælum.

 

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning