FA fagnar niðurstöðu ESA um innflutt egg og mjólk

14.09.2016

Innflutt eggFélag atvinnurekenda fagnar rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), sem birt var í dag. Þar kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld brjóti EES-samninginn með hömlum á innflutningi á hráum eggjum, ógerilsneyddri mjólk og vörum úr þessum hráefnum. FA lítur svo á að um tæknilega viðskiptahindrun sé að ræða, rétt eins og hömlur ríkisins á innflutningi á fersku kjöti. Hömlurnar séu við lýði til að vernda innlenda framleiðslu fyrir samkeppni, ekki til verndar neytendum.

Í rökstuddu áliti ESA er rakið að samkvæmt íslenskum lögum verða innflytjendur á eggjum og ógerilsneyddum mjólkurvörum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar. ESA telur að þessar kröfur stangist á við tilskipun 89/662/EBE um eftirlit með dýraheilbrigði.

„Vörur úr eggjum og mjólk sem viðskipti eru með innan Evrópska efnahagsvæðisins lúta nákvæmum reglum um heilbrigðiseftirlit í framleiðsluríkinu.  Eftirlit í viðtökuríki er hins vegar takmarkað við stikkprufur. Yfirgripsmikið regluverk ESB, sem er hluti af EES-samningnum, er sérstaklega hannað til að  draga úr áhættu og minnka líkur á að sjúkdómsvaldar berist milli landa. Víðtækt kerfi varúðarráðstafana er við lýði ef hætta skapast á útbreiðslu sjúkdómsfaraldurs í EES-ríkjum,“ segir í fréttatilkynningu ESA.

ESA vekur athygli á því að þrátt fyrir skýra niðurstöðu EFTA-dómstólsins í sambærilegu máli, varðandi hömlur á innflutningi á fersku kjöti, hafa íslensk stjórnvöld ekkert aðhafst til að breyta lögum.

Ekki eftir neinu að bíða
„Rétt eins og í kjötmálinu er ekki eftir neinu að bíða að aflétta þessum viðskiptahindrunum varðandi egg og mjólk,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Þær vörur sem hér um ræðir hafa undirgengist strangt heilbrigðiseftirlit í framleiðsluríkjunum. Það hefur lengi legið fyrir að þessar reglur væru hluti af EES-samningnum og Ísland samdi ekki um undanþágu frá þeim á sínum tima. Með afnámi innflutningshamla stendur neytendum til boða meira úrval af ferskri gæðavöru. Með því að draga lappirnar þrátt fyrir álit ESA og dóma EFTA-dómstólsins eru íslensk stjórnvöld eingöngu að kaupa sér tíma og hafa þau gæði af neytendum.“

 

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning