FA fer enn fram á skýringar frá menntamálaráðuneyti vegna sumarnáms

28.05.2021
Endurmenntunarstofnanir HÍ og HA bjóða fjölda námskeiða á 3.000 krónur undir merkjum sumarúrræða stjórnvalda.

Félag atvinnurekenda hefur enn ítrekað fyrri fyrirspurnir sínar til menntamálaráðuneytisins vegna svokallaðra sumarúrræða stjórnvalda í framhalds- og háskólum. Fram hefur komið að drjúgur hluti þeirra fjármuna, sem runnið hafa til sumarnáms, hefur farið til að greiða niður námskeið hjá sí- og endurmenntunarstofnunum háskólanna, sem haldin eru í beinni samkeppni við námsframboð einkarekinna fræðslufyrirtækja. Samkeppniseftirlitið hefur beint því til ráðuneytisins að huga fyrirfram að samkeppnislegum áhrifum slíkra ráðstafana.

Í erindi, sem FA hefur sent ráðuneytinu, er m.a. farið fram á skýringar á ýmsu misræmi sem fram hefur komið í svörum ráðuneytisins til Samkeppniseftirlitsins annars vegar og á Alþingi hins vegar.

Samkeppni eða ekki samkeppni?
Í bréfi, sem ráðuneytið sendi Samkeppniseftirlitinu í september í fyrra í framhaldi af kvörtun FA, kom annars vegar fram að ráðuneytið legði til grundvallar að „starfsemi framhaldsskóla og háskóla, þar á meðal umrædd námsúrræði, falli undir almannaþjónustu sem ekki eru af efnahagslegum toga og fjárveitingar til þeirra geti þannig ekki falið í sér atvinnustarfsemi á samkeppnissviði.“ Í sama bréfi segir ráðuneytið hins vegar að halda þurfi samkeppnisrekstri framhalds- og háskóla aðskildum frá almannaþjónustu. FA hefur ítrekað bent á að enginn vafi leiki á því að fjárveitingar til sumarnáms hafi verið notaðar til að niðurgreiða samkeppnisrekstur endurmenntunardeilda háskólanna.

Einingabær námskeið eða ekki?
Í bréfinu til Samkeppniseftirlitsins hélt ráðuneytið því fram að stærstur hluti námskeiða í framhaldsskólum og háskólum sem voru hluti sumarúrræða stjórnvalda í fyrra hefðu verið einingabær. Að baki kvörtun FA væru hins vegar fyrirtæki sem ekki gætu boðið upp á einingabært nám og því hefði stjórnvöldum ekki verið heimilt að fela þeim framkvæmd sumarúrræðanna. Þetta stangast beint á við það sem blasti við þegar auglýsingar endurmenntunarstofnana voru skoðaðar, en mörg námskeiðanna sem þær buðu voru ekki einingabær. Það átti t.d. aðeins við um tvö af 35 námskeiðum Endurmenntunar Háskóla Íslands. Þetta stangast líka á við það sem fram kom í svari Lilju Daggar Alfreðsdóttur menntamálaráðherra á Alþingi við fyrirspurn Hönnu Katrínar Friðriksson, en þar kom fram að ekki hefði verið gerð krafa um að öll námskeið veittu ECTS-námseiningar.

Fékk Endurmenntun HÍ enga peninga og enga nemendur?
Í bréfi menntamálaráðuneytisins til Samkeppniseftirlitsins var staðfest að Endurmenntun Háskóla Íslands hefði fengið 22,5 milljónir af því fé sem úthlutað var til sumarúrræðanna. Það stangast beint á við upplýsingar í svarinu á Alþingi, þar sem segir að ekki hafi verið veitt fé til svonefndra endur- og símenntunarstofnana háskóla. Í svarinu er tafla, þar sem fram kemur að enginn hafi verið skráður í námskeið á vegum EHÍ. Það stenst augljóslega ekki. Þar kemur einnig fram að skráningar í símenntunardeild Háskólans á Akureyri hafi verið 407 og í endurmenntunardeild Háskólans í Reykjavík 544. Það getur þá engan veginn staðist að þær hafi ekki fengið neina fjármuni af 500 milljóna króna framlagi til sumarnáms.

Ráðuneytið endurskoði afstöðu sína
„Af framangreindu er ljóst að félagið á erfitt með glöggva sig á því hvers vegna einkareknu fræðslufyrirtækjunum hefur ekki verið boðið að vera hluti af námsúrræðum stjórnvalda sem hafa nú verið kynnt að nýju fyrir sumarið 2021. Skoðun FA á námsframboði undir hatti sumarúrræða stjórnvalda leiðir í ljós að á ný er fjöldi námskeiða í beinni samkeppni við þjónustu fyrirtækjanna niðurgreiddur um tugi prósenta en sumarnámið er auglýst sérstaklega á heimasíðunni www.naestaskref.is. Rekstur fyrirtækjanna hefur eins og gefur að skilja verið þungur vegna heimsfaraldurs COVID-19 og ákvörðun stjórnvalda um að gera þau ósamkeppnishæf annað sumarið í röð er einfaldlega ótæk. Þess er óskað að ráðuneytið fari vel yfir þau rök sem það hefur kynnt og endurskoði afstöðu sína án tafar,“ segir í bréfi FA til menntamálaráðuneytisins

FA fer þess jafnframt á leit að spurningum og upplýsingabeiðnum til ráðuneytisins, sem settar voru fram í bréfum FA 13. apríl og 17. maí verði svarað hið fyrsta.

Bréf menntamálaráðuneytisins til Samkeppniseftirlitsins 25. september 2020
Svar Lilju Daggar Alfreðsdóttur á Alþingi um ríkisstyrki til sumarnáms 21. maí 2021
Bréf FA til menntamálaráðuneytisins 28. maí 2021

Nýjar fréttir

Innskráning