FA festir kaup á nýju húsnæði

09.11.2022
Skeifan 11. Þar verða skrifstofa og fundarsalur FA á þriðju hæð.

Félag atvinnurekenda hefur selt húseign sína í Húsi verslunarinnar og fest kaup á öðru húsnæði, á 3. hæð í Skeifunni 11. Gera þarf miklar breytingar á húsnæðinu í Skeifunni og er gert ráð fyrir að starfsemi FA flytjist á nýja staðinn næsta vor.

Húsnæði FA á 9. hæð í Húsi verslunarinnar hefur verið mun stærra en félagið þarf á að halda fyrir eigin starfsemi og hefur hluti þess verið í útleigu. Markmiðið með flutningunum er m.a. að losa fjármuni sem hafa verið bundnir í húseigninni og lækka um leið rekstrarkostnað félagsins. „Við erum ánægð með nýju staðsetninguna, verðum áfram mjög miðsvæðis og með marga félagsmenn okkar í næsta nágrenni,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.

Í Skeifunni 11 verða innréttaðar skrifstofur sniðnar að þörfum félagsins ásamt rúmgóðum fundarsal. Undanfarna áratugi hefur verið rekinn í húsnæðinu samkomu- og veitingasalur, Húnabúð. Húsnæðið er tæplega 250 fermetrar en húseign FA í Kringlunni var um 400 fermetrar.

FA fær nýja húsnæðið afhent 1. desember næstkomandi og hefjast þá fljótlega framkvæmdir við breytingar. Félagið mun leigja hluta af núverandi húsnæði á 9. hæð Húss verslunarinnar af nýjum eiganda þar til flutt verður í Skeifuna.

FA var í hópi þeirra fyrirtækja og félagasamtaka sem reistu Hús verslunarinnar og hafa skrifstofur félagsins verið þar frá árinu 1982.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning