FA gagnrýnir drög að reglum um lyfjaauglýsingar: Of flóknar og íþyngjandi

11.11.2015

LyfjamyndFélag atvinnurekenda hefur sent velferðarráðuneytinu umsögn um drög að nýrri reglugerð um lyfjaauglýsingar. Reglurnar á að setja m.a. í kjölfar lagabreytingar sem heimilar lyfjaauglýsingar í sjónvarpi, sem FA og Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA) höfðu lengi barist fyrir. FA fagnar því að endurskoða eigi reglur um lyfjaauglýsingar, enda var löngu tímabært að skýra þær. Hins vegar gagnrýnir félagið að í reglugerðardrögunum sé málið flækt óþarflega mikið og þyngri kvaðir lagðar á fyrirtæki á Íslandi en í nágrannaríkjunum.

Í umsögn FA, sem unnin er af lyfjahópi félagsins, er bent á að reglur um lyfjaauglýsingar á Íslandi byggi á lyfjatilskipun Evrópusambandsins, sem er hluti EES-samningsins. „Hins vegar hefur ýmiss konar skilyrðum sem ekki er að finna í tilskipuninni verið bætt við. Með því er dregið úr skýrleika auk þess sem þyngri kvaðir eru lagðar á fyrirtæki hér í landi en í nágrannaríkjum okkar,“ segir í umsögninni. „Starfsemi lyfjafyrirtækja er alþjóðleg og ekki bundin við afmörkuð landamæri og því mikilvægt að reglur um starfssvið þeirra, m.a. heimild til auglýsinga, séu samræmdar milli landa eftir því sem kostur er. Í þessu ljósi telur hópurinn rétt að ákvæði reglugerðarinnar verði færð til samræmis við nefnda tilskipun og viðbótarskilyrði tekin út. Væri það jafnframt í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið.“

Sérstaklega bendir FA á að við samningu reglugerðardraganna hefur verið bætt við ýmsum skilyrðum um hvað eigi að koma fram í lyfjaauglýsingum. EES-tilskipunin gerir kröfu um að í auglýsingu komi fram heiti lyfsins, nauðsynlegar upplýsingar um skilvirka notkun þess og skýr, auðlæsileg hvatning til að lesa vandlega leiðbeiningar á fylgiseðli eða umbúðum. Í reglugerðardrögunum er bætt við skilyrðum um t.d. pakkningastærðir, aukaverkanir og skammtastærðir. Auk þess eru gerðar mismunandi kröfur til auglýsinga eftir því í hvaða fjölmiðlum þær birtast, án þess að auðvelt sé að sjá hvaða rök liggja þar að baki.

Of miklar upplýsingar hafa öfug áhrif
„Það hefur sýnt sig að of ítarlegar upplýsingar geta dregið úr skýrleika. Líkt og Viðskiptaráð hefur bent á hafa rannsóknir leitt í ljós að neytendur taka ekki eftir nema þrennum skilaboðum í auglýsingu. Þannig sé meira upplýsingagildi fólgið í tilvísun í fylgiseðil þegar um er að ræða stutta sjónvarpsauglýsingu,“ segir í umsögn FA. „Of miklar kröfur til upplýsinga í lyfjaauglýsingum geta þannig haft öfug áhrif og dregið úr skilningi fólks á virkni þess lyfs sem verið er að auglýsa. Heilbrigð skynsemi segir fólki sömuleiðis að í knöppu formi auglýsinga til dæmis á flettiskiltum eða í sjónvarpi er engin leið að koma slíku upplýsingamagni að með skynsamlegum eða skiljanlegum hætti.“

Félagið bendir á að skilyrðið um að allar aukaverkanir lyfs séu taldar upp í auglýsingum sé ekki skynsamlegt. „Lyf hafa alla jafna einhverjar aukaverkanir, sum fáar en önnur geta haft fjöldann allan af misalvarlegum aukaverkunum. Dæmi eru um lyf með tugi aukaverkana en það segir sig sjálft að upptalning þeirra allra í auglýsingu er mjög til þess fallin að lengja auglýsinguna og draga úr skýrleika hennar. Mikilvægt er að fólki sé bent á að kynna sér upplýsingar um lyf, rétta notkun þeirra og mögulegar aukaverkanir. Hins vegar telur hópurinn að því markmiði verði náð með því að hafa skýra og auðlæsilega hvatningu til að lesa vandlega upplýsingar á fylgiseðli eða á ytri umbúðum,“ segir í umsögninni.

FA hvetur til þess að mismunandi skilyrði eftir miðlum verði felld út og sömuleiðis önnur skilyrði en mælt er fyrir um í lyfjatilskipuninni.

Ýmsa aðra gagnrýni á reglugerðardrögin er að finna í umsögn FA.

Umsögn lyfjahóps FA um drög að reglugerð um lyfjaauglýsingar

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning