FA gagnrýnir seinagang við lækkun gjaldskrár Póstsins

17.08.2018

Félag atvinnurekenda gagnrýnir þá töf, sem orðið hefur á að verðskrá fyrir einkaréttarþjónustu Íslandspósts sé endurskoðuð til lækkunar. Samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) frá í janúar síðastliðnum bar Íslandspósti að endurskoða verðskrána fyrir 1. júní síðastliðinn og skila hagræði af fækkun dreifingardaga í þéttbýli til notenda þjónustunnar. Fyrirtækið skilaði inn tillögu að nýrri verðskrá mánuði of seint og er hún enn til skoðunar hjá PFS. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.

Bar að skila hagræðinu til notenda
Með ákvörðun nr. 2/2018, sem birt var 23. janúar síðastliðinn, heimilaði Póst- og fjarskiptastofnun Íslandspósti að fækka dreifingardögum í þéttbýli. Hins vegar féllst stofnunin ekki á að fyrirtækið héldi gjaldskrá sinni óbreyttri og nýtti hagræðið af fækkun dreifingardaga til að leysa rekstrarvanda.

Þannig fjallar stofnunin á bls. 19 í ákvörðuninni um endurskoðun gjaldskár innan einkaréttar: „Í svörum ÍSP kemur fram að ekki verði gerðar breytingar á gjaldskrá innan einkaréttar, né afsláttarskilyrðum vegna fækkunar dreifingardaga. Tiltekur fyrirtækið að eftir breytinguna muni verð á öllum bréfum undir 50 g vera það sama og í dag er fyrir B-póst.“ 

Á bls: 20 segir síðan: „PFS telur að það hagræði sem ÍSP telur að verði við breytingarnar eigi að skila sér til þeirra notenda þjónustunnar sem við á hverju sinni.“  Í ákvörðunarorðum á bls. 21 segir: „Vegna fækkunar dreifingardaga skal Íslandspóstur ohf. endurskoða gjaldskrá innan einkaréttar eigi síðar en 1. júní 2018.“

Skilað mánuði of seint – notendur eru enn ofrukkaðir. 
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að Íslandspóstur hafi skilað inn tillögu að nýrri gjaldskrá til Póst- og fjarskiptastofnunar tæplega mánuði of seint, eða undir lok júní. Málið er enn í ferli hjá eftirlitsstofnuninni.

„Ákvörðunin var afdráttarlaus um það að Íslandspóstur ætti að endurskoða gjaldskrána eigi síðar en 1. júní. Nú hefur það dregist í tvo og hálfan mánuð. Það þýðir einfaldlega að notendur þjónustunnar eru að borga of mikið fyrir hana,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í viðtali við Fréttablaðið í dag.

Ólafur bendir á að breytingin á dreifingardögunum hafi tekið gildi í byrjun árs og því hafi hagræðið af breytingunum skilað sér til Íslandspósts þrátt fyrir ákvörðun PFS. „Þetta er því miður enn eitt dæmið um að Íslandspóstur haldi uppi verðlagningu á þjónustu sem er í einkarétti. Á sama tíma er verðskrá fyrir samkeppnisrekstur einkennilega lág og hefur lítið breyst,“ segir Ólafur í blaðinu. „Við hvetjum PFS til að taka fastar á þessum samkeppnisháttum Íslandspósts. Að okkar mati hefur stofnunin ekki staðið sig nógu vel við að fylgja eftir lögum og reglum og eigin ákvörðunum.“

Umfjöllun á frettabladid.is

Umfjöllun á visir.is

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning