FA gagnrýnir skipan og tillögur starfshóps ráðherra

23.08.2016
Innfluttar-skinkur
Ein tillaga starfshópsins gengur út á að í stað þess að tollfrjálsir innflutningskvótar samkvæmt samningnum við ESB nýtist til að auka vöruúrval í íslenskum verslunum verði þeir nýttir til að bregðast við skorti þegar innlendir kjötframleiðendur anna ekki eftirspurn.

Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega skipan og tillögur starfshóps, sem landbúnaðarráðherra skipaði í apríl síðastliðnum til að fjalla um viðbrögð við tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins. Upplýsingar um tillögur hópsins koma fram í drögum að nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um búvörusamningafrumvarpið. Nefndin tekur tillögurnar upp og gerir að sínum og beinir því til landbúnaðarráðherra að hann leiti leiða til að mæta þeim.

Í drögunum kemur fram að hópurinn hafi verið skipaður fulltrúum utanríkis- og atvinnuvegaráðuneyta, mörgum fulltrúum landbúnaðarins (Bændasamtakanna og búgreinafélaga) og fulltrúa frá Samtökum iðnaðarins.

Enginn fulltrúi innflytjenda eða neytenda
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir það mótsagnakennt að um leið og meirihluti atvinnuveganefndar geri tillögu um ný vinnubrögð og viðurkenni að það hafi verið mistök að við gerð búvörusamninga hafi fulltrúar ríkisins og landbúnaðarins einir komið að samningaborðinu, geri meirihlutinn að sínum tillögur starfshóps sem hafi verið samdar án nokkurrar aðkomu neytenda eða innflytjenda búvöru. „Það þarf ekki að koma á óvart, miðað við að hópurinn var eingöngu skipaður fulltrúum ríkisins og innlendra framleiðenda, að tillögurnar ganga að hluta til út á að hafa aftur af neytendum þann ávinning í formi fjölbreyttara úrvals og lægra vöruverðs, sem samningurinn við ESB átti að færa þeim,“ segir Ólafur.

Neytendafjandsamlegar tillögur
Í tillögum hópsins er lagt til að þeir tollfrjálsu innflutningskvótar, sem samið var um við Evrópusambandið, verði nýttir til að bregðast við skorti á kjöti á innanlandsmarkaði. Ólafur bendir á að það hafi aldrei verið tilgangur tollkvóta samkvæmt alþjóðasamningum. „Tilgangur slíkra tollkvóta er að auka vöruúrval, efla samkeppni við innlendan landbúnað og lækka verð til neytenda, ekki að bregðast við skorti. Til að mæta því ef innlend kjötframleiðsla hefur ekki annað eftirspurn hafa verið gefnir út svokallaðir opnir tollkvótar, reyndar með drjúgum tollum. Tillaga hópsins gengur út á að þeir kvótar verði dregnir saman og innflutningsheimildir, sem áttu að koma neytendum til góða með aukinni fjölbreytni og lægra verði, notaðar til að fylla upp í götin ef innlendir framleiðendur anna ekki eftirspurn,“ segir Ólafur.

Önnur tillaga hópsins er að ESB-tollkvótarnir verði boðnir upp oft á ári í stað þess að vera boðnir upp fyrir heilt ár eins og nú er. „Þetta er mjög neytendafjandsamleg tillaga. Tíð uppboð munu þýða meira umstang og kostnað fyrir innflytjendur og hærra verð á tollkvótunum, sem kemur fram í endanlegu verði vörunnar til neytenda. Þau munu líka koma niður á fyrirsjáanleika og afhendingaröryggi innflytjenda gagnvart verslunum og veitingahúsum. Það hefur verið nógu erfitt að tryggja slíkt í núverandi kerfi,“ segir Ólafur.

Þriðja tillagan gengur út á að gera harðari heilbrigðiskröfur til innflutnings. „Það hljómar vel að gera strangari heilbrigðiskröfur. Það er hins vegar gamalkunnug tæknileg viðskiptahindrun að herða heilbrigðiskröfur til innflutnings undir því yfirskini að vilja vernda velferð neytenda, þegar hinn raunverulegir tilgangur er að vernda innlenda framleiðendur fyrir samkeppni. Hér er verið að tala um innflutning frá ríkjum ESB. Þær vörur hafa staðist heilbrigðiseftirlit samkvæmt öllum sömu kröfum og gilda samkvæmt íslenskum lögum, enda er sama matvælalöggjöf í gildi þar og hér,“ segir Ólafur.

Stenst ekki samninginn við ESB
Ólafur segir að afar ólíklegt sé að þessar tillögur standist samninginn við ESB, en þar segir: „Samningsaðilarnir eru sammála því að tryggja að ávinningnum, sem þeir veita  hvor öðrum, verði ekki stefnt í hættu með öðrum takmarkandi innflutningsráðstöfunum.“

„Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að meirihluti atvinnuveganefndar láti það standa í nefndaráliti að hann geri þessar tillögur að sínum, ef ætlunin er að skapa hér einhverja sátt um landbúnaðinn,“ segir Ólafur. „Það er svo kaldhæðnislegt að nú stendur málið þannig að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherrann sem gerði samninginn við ESB og stærði sig þá af því að hafa náð fram meira vöruúrvali og lægra verði fyrir neytendur, er kominn í stól landbúnaðarráðherra og á samkvæmt drögum að áliti atvinnuveganefndar að beita sér fyrir aðgerðum sem hafa aftur af neytendum þann réttmæta ávinning. Þetta er fjarstæðukennt.“

Hér að neðan eru tillögur starfshóps landbúnaðarráðherra eins og þær koma fram í drögum að nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar:

  • Að skorti á tilteknum skrokkhlutum verði beint inn í tollkvóta með því að afmarka hluta ESB tollkvótans fyrir þá vöruflokka sem skortur er á.
  • Að við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beini, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
  • Að tollkvótum verði úthlutað oftar á árinu, allt að fjórum sinnum í stað einu sinni, til þess að viðhalda jafnara flæði inn á íslenskan markað.
  • Stjórnvöld leiti allra leiða til að setja frekari reglur um fyrirkomulag innflutnings, m.t.t. gæðakrafna, einkum og sér í lagi að því er snertir lyfjanotkun og heilbrigðiskröfur til afurða.
  • Stjórnvöld skipi starfshóp sem verði falin greining á stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart mögulegum breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Sérstöku fjármagni verði veitt í slíka greiningarvinnu.
  • Að heimilað verði að nýta fjármuni til úreldingar sem ætlaðir eru til fjárfestingar hjá svínabændum.
  • Að leitað verði leiða til að andvirði tekna af útboði tollkvóta fyrir hvítt kjöt verði ráðstafað til fjárfestinga og stuðnings við svína- og alifuglabændur til að uppfylla kröfur vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða.
  • Að stofnaður verði nýr lánaflokkur hjá Byggðastofnun fyrir svína- og alifuglabændur með lægri vaxtakjör en á öðrum lánum sem þessar greinar hefðu aðgang að til að mæta nýjum aðbúnaðarreglugerðum.

Viðtal við Ólaf Stephensen í tíufréttum RÚV

Viðtal við Ólaf Stephensen, Jón Gunnarsson og Björt Ólafsdóttur í Kastljósi RÚV

Nýjar fréttir

Innskráning