FA gefur ráð um hvernig megi varast svikahrappa

15.09.2021
Guðný Hjaltadóttir lögfræðingur FA.

Undanfarið ár hafa mörg fyrirtæki hér á landi orðið fyrir tjóni vegna svikastarfsemi sem felur í sér að sótt er um reikningsviðskipti hjá fyrirtækjum í nafni fyrirtækja eða jafnvel húsfélaga með gott lánshæfismat. Rætt er við Guðnýju Hjaltadóttur, lögfræðing Félags atvinnurekenda, um málið í Fréttablaðinu í dag. FA hefur gefið félagsmönnum sínum ráð og sent út viðvaranir þegar grunur vaknar um svikastarfsemi af þessu tagi og hefur í ýmsum tilvikum tekist að afstýra verulegu tjóni hjá fyrirtækjum.

„Oft er um að ræða fyrirtæki með gamlar kennitölur og í einhverjum tilvikum hafa verið búnar til heimasíður og síður á samfélagsmiðlum þannig að fyrirtækið lítur út fyrir að vera með virka starfsemi. Umsóknir virðast koma frá starfsmanni þess fyrirtækis sem er í einhverjum tilvikum skráður framkvæmdastjóri eða eigandi. Vörur eru sóttar til fyrirtækja af aðilum á vegum umsóknarfyrirtækis en þegar kemur að skuldadögum eru reikningar ekki greiddir,“ segir Guðný í Fréttablaðinu.

Kann að líta út eins og vanskil en er fjársvik
Guðný segir að það kunni að líta út eins og vanskil vegna ógjaldfærni en þegar betur sé að gáð komi í ljós að velta fyrirtækis sem um ræðir sé engin, engin starfsemi sé fyrir hendi og netföng séu tilbúningur. „Við enn frekari eftirgrennslan kemur í ljós að umsóknarfyrirtæki hefur tekið út vörur hjá tugum fyrirtækja án þess að greiða fyrir þær,“ segir hún og nefnir að því sé ekki um ósaknæm vanskil að ræða heldur brot gegn fjársvikaákvæði almennra hegningarlaga þar sem blekkingum sé beitt til að hafa fjármuni af öðrum.

„Öfugt við net- og tölvupóstssvindl, sem hefur kannski verið mest áberandi að undanförnu, þá er þetta ekki tæknivædd svikaleið heldur er verið að misnota það traust í viðskiptalífi í litlu landi, sem hefur valdið því að það hefur verið tiltölulega auðvelt að fá heimild til reikningsviðskipta,“ segir hún.

Aðspurð segir Guðný að það geti verið erfitt að hafa hendur í hári glæpamannanna. „Í einhverjum tilvikum hafa aðilar gert þetta undir raunverulegu nafni en oftar eru þetta tilbúin nöfn. Þá fer sönnun að verða snúin. Það er oft ungt fólk sem sækir vörurnar sem telur sig vera í vinnu,“ segir hún.

Bakgrunnskönnun, skilríki og staðgreiðsla við fyrstu kaup
Guðný segir aðspurð að refsi­rammi laganna sé sex ár en líkleg refsing yrði styttri. Það fari eftir fjárhæðum og brotavilja, tvö til fjögur ár væri líklegt ef sakir eru miklar.

Guðný segir að ef fyrirtæki vilji forðast tjón vegna svika sem tengjsat gömlum kennitölum sé ekki nóg að líta til jákvæðs lánshæfismats. Það þurfi að kanna hvort fyrirtækið hafi einhver umsvif, samkvæmt ársreikningum. Gæta skuli varúðar ef í ljós komi að fyirtækið hafi enga veltu, nafni þess hafi verið breytt og/eða ef tiltekin kaup samræmis illa tilgangi félagsins.

Hún ráðleggur fyrirtækjum að gera kröfu um framvísun skilríkja þegar vörur séu afhentar og jafnvel fara fram á staðgreiðslu við fyrstu kaup.

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning