FA heldur málsókn vegna búvörusamninga til streitu

22.08.2016
Stod2 OS 190816
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA ræddi við Stöð 2 um tillögur meirihluta atvinnuveganefndar.

Félag atvinnurekenda telur að drög að nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar um búvörusamningafrumvarpið, sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum, innihaldi marga jákvæða punkta og tillögur. Ekki á þó að breyta ákvæðum búvörusamninganna sjálfra en FA telur að sum þeirra, einkum 12. og 13. grein samningsins um starfsskilyrði nautgriparæktar, séu ólögmæt. Félagið mun halda málsókn sinni á hendur ríkinu og Bændasamtökunum til streitu, staðfesti Alþingi búvörusamningana með þessum ákvæðum óbreyttum.

Í fjölmiðlum hefur framkvæmdastjóri FA sagt að í breytingartillögum meirihluta atvinnuveganefndar felist viðurkenning á þrennu, sem félagið hefur gagnrýnt í frumvarpinu og núverandi landbúnaðarkerfi.

  • Viðurkennt er að samningaferlið um búvörusamningana, þar sem samið var út frá þröngum hagsmunum Bændasamtakanna og ríkisins og röddum víðtækari hagsmuna ekki hleypt að borðinu, var misráðið. Taka á upp önnur og betri vinnubrögð í framtíðinni.
  • Viðurkennt er að ástandið á mjólkurmarkaðnum brýtur í bága við samkeppnislög og leita á leiða til að breyta því þannig að sömu lög gildi um mjólkuriðnaðinn og aðrar atvinnugreinar í landinu.
  • Nefndin rökstyður það að ekki eigi að bjóða út tollkvóta á upprunamerktum ostum frá ESB-ríkjum með því að þeir séu ekki í beinni samkeppni við innlenda ostaframleiðslu. Það er um leið viðurkenning á því að uppboð á tollkvótum á búvörum sé ígildi verndartolls, ætlað til að hækka enn verðið á vöru sem flutt er inn í samkeppni við innlenda framleiðslu. Þessu hefur FA löngum haldið fram, en ríkisvaldið verið tregt til að viðurkenna að þannig sé í pottinn búið.

Allt eru þetta jákvæðir punktar í drögum að meirihlutaálitinu.

FA vekur hins vegar athygli á því að ekki á að breyta texta búvörusamninganna. Að mati félagsins eru sum ákvæði þeirra ólögmæt, einkum 12. og 13. grein samningsins um starfsskilyrði nautgriparæktar. FA vildi í byrjun sumars láta á lögmæti samninganna reyna fyrir dómi, en Hæstiréttur synjaði félaginu um flýtimeðferð fyrir dómstólum, með þeim rökum að Alþingi hefði ekki staðfest þá og þeir hefðu því ekki tekið gildi. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA sagði í viðtölum við fjölmiðla fyrir helgina að samþykkti Alþingi samningana með þessum ákvæðum óbreyttum, myndi FA skoða vandlega að láta á málsóknina reyna.

Viðtal við Ólaf Stephensen á ruv.is

Viðtal við Ólaf Stephensen á Stöð 2

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning