FA ítrekar áskorun um flýtimeðferð í MS-málinu

23.07.2015

MjólkursamkeppniFélag atvinnurekenda hefur sent Samkeppniseftirlitinu erindi og ítrekað fyrri áskorun sína um að stofnunin hraði eins og kostur er meðferð samkeppnismáls Mjólkurbúsins Kú gegn Mjólkursamsölunni. Samkeppniseftirlitið hafði sektað MS um 370 milljónir fyrir samkeppnisbrot gegn Kú í september síðastliðnum. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála vísaði málinu aftur til Samkeppniseftirlitsins til rannsóknar í desember, eftir að í ljós kom að MS hafði leynt lykilgögnum við rannsókn málsins.

Erindið er sent í ljósi nýlegrar ákvörðunar verðlagsnefndar búvara um hækkun á verði hrámjólkur til úrvinnslu. Mjólkurbúið Kú telur ákvörðun nefndarinnar stefnt gegn samkeppni á mjólkurmarkaði og vera sérstaklega til þess fallna að ýta keppinauti MS af markaði. Hyggst fyrirtækið kæra málið til Samkeppniseftirlitsins.

„FA vill af þessu tilefni ítreka mikilvægi þess að niðurstaða fáist skjótt um framgöngu Mjólkursamsölunnar gagnvart keppinautum sínum. Það er óþolandi að markaðsráðandi fyrirtæki komist upp með að draga málsmeðferð á langinn með því að leyna gögnum fyrir Samkeppniseftirlitinu eins og MS gerði í þessu máli. Smærri keppinautar hafa einfaldlega ekki bolmagn til að bíða niðurstaðna samkeppnisyfirvalda mánuðum og jafnvel árum saman,“ segir í erindi Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA til Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Nýjar fréttir

Innskráning