FA kærir Heilsugæsluna vegna innkaupa á hraðprófum án útboðs

25.02.2022
Heilsugæslan keypti hraðpróf fyrir 380 milljónir króna án útboðs.

Félag atvinnurekenda hefur kært Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til kærunefndar útboðsmála vegna innkaupa á hraðprófum til greiningar á kórónuveirunni fyrir tæplega 380 milljónir króna án útboðs. Framundan eru nokkrar vikur, þar sem almenningi er vísað nánast eingöngu á hraðpróf til greiningar á veirunni og segir framkvæmdastjóri FA að Heilsugæslan hljóti að fara að lögum við næstu innkaup á prófum. 

Heilsugæslan hefur upplýst að hún hafi á níu mánaða tímabili keypt inn hraðpróf fyrir rétt tæpar 380 milljónir króna af tveimur fyrirtækjum. Stofnunin hóf svokallað verðfyrirspurnarferli, sem ekki var klárað. Síðar var fyrirtækjum boðið að gerast aðilar að gagnvirku innkaupakerfi á vegum Ríkiskaupa, en engin innkaup fóru fram í gegnum kerfið. 

Ekki neyðarástand í níu mánuði
Heilsugæslan vísaði í svari við fyrirspurn FA um innkaupin til þess að nauðsynlegt hefði verið að fara framhjá meginreglu laganna um opinber innkaup vegna neyðarástands af völdum kórónuveirufaraldursins. FA lýsir í kærunni ákveðnum skilningi á þeim ástæðum sem til staðar hafa verið vegna faraldursins, en telur þó algjörlega ljóst að innkaupin séu langt umfram þá heimild sem ákvæði laganna um opinber innkaup um neyðarástand vegna ófyrirsjáanlegra atburða geti falið í sér. „Um er að ræða undantekningarreglu frá meginreglu [laganna um opinber innkaup] og ber að beita henni varlega. Einkar hæpið hlýtur að teljast að halda því fram að varðandi innkaup, sem náðu yfir níu mánaða tímabil og námu svo hárri fjárhæð, hafi neyðarástand ríkt allan tímann,“ segir í kæru FA. 

Hefðu getað sparað 85 milljónir
Að mati FA hefði Heilsugæslan getað sparað um 85 milljónir króna með því að fara að lögum, miðað við tilboð frá félagsmanni í FA, sem sent var stofnuninni í áðurnefndu verðfyrirspurnarferli. Þar voru í boði hraðpróf sem fengið hafa opinbera viðurkenningu hér á landi. 

„Einn tilgangur laganna um opinber innkaup er einmitt að tryggja að fé skattgreiðenda sé ekki sóað að óþörfu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Annar er að fyrirtæki sitji við sama borð til að tryggja samkeppni og forðast spillingu.“

Ólafur bendir á að nú hafi því verið lýst yfir af hálfu stjórnvalda að næstu vikur verði nánast öllum vísað í hraðpróf til að greina Covid-sýkingu. „Við trúum ekki öðru en að næstu innkaup hraðprófa verði gerð í gegnum gagnvirkt innkaupakerfi Ríkiskaupa, í samræmi við lög. Ef það verður ekki gert, er það til marks um mjög einbeittan brotavilja Heilsugæslunnar,“ segir Ólafur.

Kæra FA til kærunefndar útboðsmála

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning