FA krefst aðildar að búvörusamningum hvað tollamál varðar

05.12.2023

Félag atvinnurekenda hefur sent Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra erindi og krafist aðildar að endurskoðun búvörusamninga hvað tollamál varðar. FA bendir á að láti ráðherra undan kröfum Bændasamtaka Íslands um að hækka tolla á innfluttum búvörum sé ráðherra að taka stjórnvaldsákvörðun sem væri íþyngjandi fyrir matvöruinnflytjendur, félagsmenn FA. Ráðherra væri þannig í raun að semja við einn einkaaðila, Bændasamtökin, um að hækka skatta á keppinautum hans, matvöruinnflytjendum, til að rýra samkeppnisstöðu þeirra.

Endurskoða ber búvörusamninga ríkisins og Bændasamtakanna öðru sinni nú á árinu 2023. Fram hefur komið opinberlega að Bændasamtökin setji í viðræðum um endurskoðunina fram kröfur um hækkun tolla á innfluttum búvörum og er í erindi FA vísað í að sumir talsmenn ríkisstjórnarinnar hafi tekið undir slíkar hugmyndir.

„Þannig sagði innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins í Kastljósi RÚV 27. september síðastliðinn er rætt var um hækkun tolla að slíkt „kosti ekki ríkissjóð nokkra krónu en myndi hjálpa landbúnaðinum.“ Þetta er reyndar útúrsnúningur; eigendur ríkissjóðs eru skattgreiðendur, sem eru sama fólkið og neytendur. Engum vafa er undirorpið að hækkun tolla bitnar á buddu neytenda og skattgreiðenda, bara með minna sýnilegum hætti en þegar stuðningur við landbúnaðinn kemur beint úr ríkissjóði,“ segir í erindi FA til ráðherra.

Þar er jafnframt rakið að í Félagi atvinnurekenda séu margir af helstu matvöruinnflytjendum landsins. „Hækkun tolla á innfluttum matvörum fæli í sér íþyngjandi aðgerðir gagnvart þeim fyrirtækjum og rekstri þeirra. FA telur ástæðu til að rifja upp að í 30. grein búvörulaga, sem búvörusamningar byggjast á, er enga  heimild að finna til handa ráðherra að semja við einkaaðila, Bændasamtökin, um að leggja skatta á aðra einkaaðila, innflytjendur matvöru, sem eru í samkeppni við þann fyrrnefnda, þótt slíkt hafi verið gert með búvörusamningum sem voru undirritaðir árið 2016. Verður að telja það einsdæmi að ríkið semji sérstaklega um það við eina atvinnugrein að hækka skatta á keppinautum hennar og skaða þannig hagsmuni eins einkaaðila í samkeppni hans við annan,“ segir í erindinu til ráðherra.

„Semji ráðherra við Bændasamtökin um að hann beiti sér fyrir hækkun tolla á innfluttum búvörum er hann að taka stjórnsýsluákvörðun sem hefur rík áhrif á starfsskilyrði og hagsmuni félagsmanna FA. Í því ljósi fer félagið fram á að fá stöðu aðila að endurskoðun búvörusamninganna hvað tollamál varðar, til samræmis við meginreglur um aðild að stjórnsýslumálum, enda hafa félagsmenn FA beinna, sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af ákvörðuninni.“

Erindi FA til matvælaráðherra

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning