FA krefst upplýsinga um farmiðakaup ríkisins

18.02.2015

FlugmiðarFélag atvinnurekenda hefur sent fjármálaráðuneytinu bréf og farið fram á upplýsingar um viðskipti ríkisins við Icelandair á grundvelli samnings við fyrirtækið frá árinu 2009, sem komið hefur fram að sé í gildi. Krafan er sett fram í framhaldi af gagnrýni FA og fleiri aðila á að farmiðakaup ríkisins skuli ekki hafa verið boðin út í meira en tvö og hálft ár.

Í janúar fór Kastljós RÚV fram á upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu um það fyrir hversu stórar fjárhæðir ríkið skipti við innlend flugfélög. Samkvæmt svari ráðuneytisins gat það ekki fengið upplýsingar um hver hlutur einstakra fyrirtækja væri í þessum viðskiptum ríkisins. Ekki væri „greinanlegt í bókhaldi Fjársýslu ríkisins hver viðskipti við einstök félög eru árlega,“ samkvæmt svari fjármálaráðuneytisins. 

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi benti í framhaldinu á að vel væri hægt að sjá hversu mikið væri greitt til einstakra fyrirtækja. „Já, það er hægt að sjá og taka saman lista yfir það hver heildarhluti viðskipta við einstaka fyrirtæki hafa verið hjá Fjársýslu ríkisins og í bókhaldi ríkisins þar með,“ sagði ríkisendurskoðandi í frétt RÚV. 

Í beiðni FA um upplýsingar eru færð rök fyrir því að hér sé um að ræða upplýsingar um ráðstöfun fjár skattgreiðenda og almenningur hafi hagsmuni af því að þær verði gerðar opinberar. Gengið er út frá því að til séu viðskiptayfirlit, sem gerð hafa verið á gildistíma samningsins.

Bréf FA til fjármálaráðuneytisins

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning