FA krefur Skattinn svara vegna breytts skattmats bankakorta

20.12.2023

Félag atvinnurekenda hefur sent Skattinum beiðni um rökstuðning fyrir breyttu skattmati hvað varðar jólagjafir fyrirtækja til starfsmanna í formi bankakorta.

Ný málsgrein kom inn í skattmat vegna ársins 2023, svohljóðandi: „Peningagjafir laungreiðanda til starfsmanna teljast alltaf til skattskyldra tekna viðtakanda, hvort sem gjöfin er í beinhörðum peningum, innleggi á bankareikninga eða afhendingu á bankakorti.“

Í grein sem birtist í Innherja á Vísi þann 4. desember sl. var því haldið fram að málsgreinin hafi þá þýðingu að bankakort sem vinnuveitendur gefi starfsfólki sínu í jólagjöf teljist að fullu til tekna hjá starfsmanninum. Það eigi hins vegar ekki við um hefðbundin gjafabréf.

„Ef það er rétt hefur það töluverð áhrif á gjafir vinnuveitenda og má ætla að flest gjafabréf verði keypt í verslunarmiðstöðvum, sem hefur neikvæð áhrif á fyrirtæki sem ekki eru staðsett þar,“ segir í erindi FA til Skattsins.

Félagið óskar eftir staðfestingu embættisins á því að bankakort sem vinnuveitendur gefa starfsfólki sínu í jólagjafir teljist alltaf til tekna óháð fjárhæð þess og óháð því hvort það sé endurgjald fyrir vinnu.

„Ef svo er óskar félagið eftir því að embættið geri grein fyrir lagagrundvelli skattlagningarinnar og upplýst hvers vegna bankakort séu skattlögð en ekki önnur gjafakort. Óskast sérstaklega rökstutt hvers vegna bankakort geti ekki talist tækifærisgjafir þegar fjárhæð er óveruleg og ekki er um endurgjald fyrir vinnu að ræða, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt,“ segir í erindi FA.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning