Félag atvinnurekenda hefur sent umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna stjórnsýslu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), sem virðist hafa tekið sér fyrir hendur að lýsa lykilákvæði í póstlögunum óvirkt og taka í framhaldi af því ólögmæta ákvörðun um hundraða milljóna króna niðurgreiðslu skattgreiðenda á samkeppnisrekstri Íslandspósts.
Í erindinu til umboðsmanns eru samskipti FA við samgönguráðuneytið og PFS rakin, en FA hefur farið fram á að stofnunin ógildi ákvörðun sína eða ráðuneytið hlutist til um það. Í ákvörðun PFS upp á rúmlega 40 blaðsíður var skautað snyrtilega framhjá því lykilatriði póstlaganna að verðskrá fyrir alþjónustu á póstmarkaði taki mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna, að viðbættum hæfilegum hagnaði. Tilgangur þess ákvæðis er að tryggja samkeppni og hindra undirverðlagningu alþjónustuveitenda. Féllst PFS á að Íslandspóstur fengi 307 milljóna króna framlag vegna undirverðlagningar á pakkaflutningum út um land. FA hefur allt frá því í ársbyrjun 2020 bent á að ný gjaldskrá Póstsins fyrir pakkaflutninga væri undirverðlögð og ólögmæt.
Gengur gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar
Í erindi FA til umboðsmanns segir að afgreiðsla PFS sé að mati félagsins ámælisverð með eindæmum enda virðist stofnunin viljandi virða að vettugi gildandi lagaákvæði. Slík ákvörðun opinbers stjórnvalds brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins. „Þessi grundvallarregla stjórnskipunar landsins felur í sér að stjórnvöldum ber við úrlausn verkefna að hafa í huga öll þau lagaákvæði er á reynir við úrlausn lögfræðilegra verkefna og leysa þau á þeim grundvelli. Stjórnvöldum er undir engum kringumstæðum heimilt að ákveða upp á sitt einsdæmi að gildandi lagaákvæði sé óvirkt. Brýtur ákvörðunin þannig gegn formreglu lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sem felur í sér að ákvarðanir stjórnvalda megi ekki vera í bága við lög,“ segir í erindinu,
FA fer þess á leit við umboðsmann að taka ákvörðun PFS til skoðunar og kanna m.a. hvort brotið sé gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og réttmætisreglu. Þá er þess óskað að umboðsmaður kanni sérstaklega hvort samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar gagnvart stofnuninni með því að bregðast ekki við er ráðuneytið var upplýst af hálfu stofnunarinnar um að hún hefði virt að vettugi gildandi lagaákvæði
Undirverðlagning getur ekki verið lögmæt
„Ástæðan fyrir því að við stígum þetta skref er að það blasir við að þarna eru stofnanir framkvæmdavaldsins, samgönguráðuneytið, fjármálaráðuneytið og Póst- og fjarskiptastofnun, að ganga út frá því að póstlögin virki öðruvísi heldur en Alþingi samþykkti þau, sem fer gegn stjórnarskránni,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag. „Það er sem sagt gengið út frá því sem gefnu að undirverðlagning á þessari pakkaverðskrá Póstsins frá ársbyrjun 2020 sé í samræmi við lög, sem hún getur ekki verið, vegna þess að í póstlögunum er þetta skýra ákvæði um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði.“