FA leggst gegn bragðefnabanni

07.04.2022
Rafrettubúðir afgreiða ekki fólk undir 18 ára aldri. Sömu reglur og um rafrettur munu gilda um t.d. nikótínpúða.

Félag atvinnurekenda telur að bann við tilteknum bragðefnum í nikótínvörum og rafrettum myndi brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrár Íslands um vernd atvinnufrelsis. Markmiðum stjórnvalda um að koma í veg fyrir að börn og unglingar neyti nikótínvara sé náð með öðrum lagaákvæðum sem þegar gilda um rafrettur og munu einnig gilda um vörur á borð við nikótínpúða; að óheimilt sé að afhenda börnum undir 18 ára aldri slíkar vörur og að geyma beri þær þar sem börn ná ekki til.

Í frumvarpi heilbrigðisráðherra, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, er lagt til að bann verði lagt við  innflutningi, framleiðslu og sölu á níkótínvörum og rafrettum „sem innihalda bragðefni sem kunna að höfða til barna, svo sem nammi- og ávaxtabragð.“

Óþarfar skorður á atvinnufrelsi
Í umsögn sinni um frumvarpið bendir rafrettuhópur FA á að samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar megi ekki setja atvinnufrelsinu skorður nema almannahagsmunir krefjist þess. Samkvæmt meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar skuli stjórnvöld ekki ganga lengra en nauðsyn ber til í því skyni að tryggja markmið þeirra. Félagið telur almannahagsmuni ekki krefjast þess að ávaxta- og nammibragðefni sé bannað m.t.t. meðalhófsreglu stjórnskipunarréttarins. „Nammibragð og ávaxtabragð er vinsælt meðal fullorðinna rétt eins og nammibragð og ávaxtabragð af áfengjum drykkjum er vinsælt meðal fullorðinna án þess að almannahagsmunir séu taldir standa til þess að takmarka þau bragðefni í áfengum drykkjum. Þá er jalapeno-bragð t.d. mjög vinsælt, án þess að slíkt bragð höfði sérstaklega til barna, en jalapeno er ávöxtur,“ segir í umsögn félagsins.

Í frumvarpinu er lagt til að 7. grein laga um rafrettur muni einnig ná til nikótínvara á borð við nikótínpúða en samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að selja og afhenda börnum rafrettur og áfyllingar. Leiki vafi á um aldur kaupanda rafrettna eða áfyllinga getur sala því aðeins farið fram að hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára. Frumvarpið felur því í sér að óheimilt verður að selja og afhenda börnum nikótínvörur. Í 6. gr. frumvarpsins er enn fremur kveðið á um að tryggja skuli að nikótínvörur séu ekki geymdar þar sem börn ná til.

Vörurnar standa börnum ekki til boða
„Vörurnar standa börnum einfaldlega ekki til boða og er þá tilgangslaust að setja sérstakar reglur um að þær skuli ekki höfða til þeirra. Hópurinn telur ákvæðin um aldursmörk, aðgengi og geymslu nikótínvara tryggja þau markmið sem að er stefnt án þess að ganga lengra en nauðsyn ber til. Til lagt bann við nammi- og ávaxtabragði er hins vegar skýrt brot gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA um frumvarpið

Nýjar fréttir

Innskráning