FA leggst gegn undanþágu afurðastöðva frá samkeppnislögum

24.11.2022

Félag atvinnurekenda leggst eindregið gegn því að frumvarpsdrög matvælaráðherra um undanþágu fyrir kjötafurðastöðvar frá samkeppnislögum verði lögð fram sem frumvarp á Alþingi. Félagið bendir á að auðveldlega sé hægt að ná fram hagræðingu í sláturiðnaði án lagabreytinga. Samstarf afurðastöðva þurfi bara að rúmast innan skilyrða ramma 15. greinar samkeppnislaga, m.a. um ávinning neytenda og að hamlað sé gegn neikvæðum áhrifum á samkeppni.

Varasamt fordæmi ef sérhagsmunahópar geta pantað undanþágur frá samkeppnislögum
Í greinargerð frumvarpsdraganna er vikið að erfiðri stöðu afurðastöðva í sláturiðnaði og lagt til að veitt verði undanþága frá bannákvæðum samkeppnislaga þannig að afurðastöðvar geti stofnað saman félag um um flutning sláturgripa, slátrun, birgðahald og frumvinnslu afurða auk skyldra verkefna.

FA bendir á að klárlega séu ekki öll þau fyrirtæki sem talin eru upp sem sláturleyfishafar í greinargerð frumvarpsdraganna í erfiðleikum, þau séu mörg hver í prýðilegum rekstri. „Afkoma Kaupfélags Skagfirðinga (KS) hefur þannig verið ljómandi góð. Félagið hefur hagn­azt um 18,3 millj­arða króna á síð­ustu fjórum árum, þar af 5,4 milljarða í fyrra. Stjórnendur félagsins hafa verið í hálfgerðum vandræðum með hagnaðinn, eins og sjá má á því að þeir hafa m.a. fjárfest hann í skyndibitakeðjum í Reykjavík. Nýlega var frá því greint að hagnaður Stjörnugríss á síðasta ári hefði verið 325 milljónir króna sem var 68% hækkun frá árinu 2020. Hagnaður Sláturfélags Suðurlands á síðasta ári var 232 milljónir króna og í ársreikningi vitnað til betri markaðsaðstæðna og sterkari stöðu,“ segir í umsögn FA.

Í greinargerð frumvarpsins er vísað til erindis formanna Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Bændasamtaka Íslands til formanna ríkisstjórnarflokkanna, um að leitað yrði leiða til að auka möguleika til samruna, aukins samstarfs og verkaskiptingar í kjötafurðavinnslu.  Afstaða FA er að það sé „algjörlega ótækt ef sérhagsmunahópar geta með þessum hætti pantað hjá stjórnvöldum undanþágur frá samkeppnislögum af því að þeir telji rekstur sumra fyrirtækja í tilteknum greinum ekki ganga nógu vel. Slíkt skapar afar varasamt fordæmi og ryður að mati félagsins brautina fyrir heldur aumkunarverðan pilsfaldakapítalisma.“

Lagabreyting óþarfi ef samstarfið er í þágu neytenda og samkeppni
Að mati FA er grundvallaratriði í þessu samhengi að margvíslegir möguleikar eru á samstarfi framleiðenda búvöru og samstarfi eða jafnvel samruna afurðastöðva að óbreyttum lögum, án undanþágna frá bannákvæðum 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Samstarfið þarf bara að uppfylla skilyrði 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga, sem eru svohljóðandi:

„Bann skv. 10. og 12. gr. gildir ekki ef samningar, samþykktir, samstilltar aðgerðir eða ákvarðanir fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja:
    a. stuðla að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða efla tæknilegar og efnahagslegar framfarir,
    b. veita neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af þeim hlýst,
    c. leggja ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð og
    d. veita fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um er að ræða.“

Árið 2020 varð sú breyting á samkeppnislögum að fyrirtæki geta sjálf metið hvort mögulegt samstarf þeirra uppfyllir skilyrði 15. greinarinnar og þurfa ekki að sækja sérstaklega um undanþágu, en Samkeppniseftirlitið getur áfram metið eftirá hvort skilyrði séu uppfyllt. „Þannig er afurðastöðvum í raun ekkert að vanbúnaði að ganga til samstarfs, innan ramma laganna. Það að hagsmunahópar telji nauðsynlegt að löggjafinn veiti þeim undanþágur frá 10. og 12. gr. samkeppnislaganna, sem ganga lengra en þessi núgildandi ákvæði, bendir hins vegar til að þeir treysti sér ekki til að rökstyðja að samstarfið uppfylli þau skilyrði sem sett eru í lögunum, til dæmis um ávinning neytenda eða hömlur á samkeppni. Það bendir jafnframt sterklega til að engin ástæða sé til að láta undan þessum sérhagsmunaþrýstingi,“ segir í umsögn FA.

Í raun varanleg heimild til að skaða neytendur og keppinauta
Í greinargerð frumvarpsdraganna er mikið gert úr því að undanþágan frá samkeppnislögum sé skilyrðum háð og tímabundin. „Því er hins vegar allsendis ósvarað í greinargerðinni hvað gerist þegar undanþágan á að falla úr gildi í ársbyrjun 2026.,“ segir í umsögn FA. „Segjum sem svo að þá verði orðið til félag eða félög með markaðsráðandi stöðu eða jafnvel einokunarstöðu, sem hefði stórskaðleg áhrif á samkeppni á kjötmarkaðnum. Á þá að slíta slíku félagi eða á það að halda áfram að vera til? Hver á að taka ákvörðun um að brjóta það upp? Eru það samkeppnisyfirvöld eða einhver annar? Áskilnaður um að undanþágan sé tímabundin er augljóslega merkingarlaus ef tíminn sem hún er í gildi er nýttur til að byggja upp viðvarandi markaðsráðandi stöðu eða einokun. Heimild frumvarpsins er þá í raun varanleg heimild til að skaða hagsmuni neytenda og keppinauta.“

Umsögn FA í heild

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning