FA leggst gegn undanþágu kjötiðnaðar frá samkeppnislögum

20.03.2019

Félag atvinnurekenda leggst í umsögn til Alþingis gegn samþykkt frumvarps tveggja þingmanna Framsóknarflokksins um að bætt verði inn í búvörulögin ákvæði um að afurðastöðvar í kjötiðnaði verði undanþegnar tilteknum ákvæðum samkeppnislaga. FA bendir á hróplegar mótsagnir í málflutningi flutningsmanna frumvarpsins og vonda reynslu af sambærilegri undanþágu fyrir mjólkuriðnaðinn.

Megintillaga frumvarpsins er að afurðastöðvum í kjötiðnaði verði veitt undanþága frá ákvæðum samkeppnislaga og þeim leyft að „sameinast og gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.“ Þetta segja flutningsmenn að yrði gott fyrir afurðastöðvar og bændur og hefði í för með sér hagstæðara verð fyrir neytendur.

Er smæðin röksemd?
Tillagan er meðal annars rökstudd með því að með henni eigi að veita innlendum kjötframleiðendum tækifæri til að bregðast við erlendri samkeppni. „Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar,“ segir í greinargerð frumvarpsins. FA segir þetta ónothæfa röksemd, enda eigi hún við um hér um bil öll fyrirtæki á Íslandi og mætti með sömu rökum undanþiggja nánast allt atvinnulífið samkeppnislögum.

Er undanþága mjólkuriðnaðarins gott fordæmi?
Flutningsmenn vísa til þess að fordæmi sé fyrir undanþágu af þessu tagi, þar sem mjólkuriðnaðurinn sé samkvæmt búvörulögum undanþeginn ákvæðum samkeppnislaga. Í krafti þeirrar undanþágu hafa mjólkursamlög sameinast og samið um verkaskiptingu með þeim afleiðingum að Mjólkursamsalan og tengd fyrirtæki eru nánast einráð á mjólkurmarkaðnum. FA bendir á að allt frá því að þessari undanþágu var komið á árið 2004 hafi Samkeppniseftirlitið gagnrýnt hana harðlega og fært rök fyrir því að hún vinni bæði atvinnulífinu og neytendum margvíslegum skaða. Hefur Samkeppniseftirlitið ítrekað lagt til að undanþágan verði afnumin. Slíkt hið sama gerði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í skýrslu sem unnin var fyrir stjórnvöld árið 2015.

Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um samkeppni í mjólkuriðnaði og stuðning við hann á 148. löggjafarþingi kom fram að verðþróun mjólkur- og kjötvara hefur verið með mismunandi hætti á árunum frá 2004, er undanþágu mjólkuriðnaðarins var komið á, til 2017. Þannig hækkaði verð mjólkurvara um 2-17% umfram verð kjötvöru á tímabilinu. Enginn vafi leikur á að meginskýringin á þessum mun er meiri samkeppni á markaði fyrir kjötvörur en mjólkurvörur.

Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins benti á það í febrúar árið 2018 að verðlag á mjólkurvörum hefði hækkað í tvö ár þar á undan, á sama tíma og verð á annarri innlendri matvöru hefði nánast staðið í stað og verð innfluttrar vöru lækkað. ASÍ vísaði til undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum og hárra innflutningstolla. „Því er ekki hægt að tala um að samkeppni ríki á íslenskum mjólkurmarkaði, hvorki innlend né erlend heldur einkennist markaðurinn af einokun eða í besta falli fákeppni. Framleiðendur fá ekki það aðhald sem samkeppni skapar sem leiðir til hærra verðs fyrir neytendur og minni nýsköpunar,“ sagði í fréttatilkynningu ASÍ. FA tekur undir þessi sjónarmið í umsögn sinni til þingsins.

Er samkeppni góð fyrir bæði neytendur og framleiðendur?
Íslenskur landbúnaður hefur haft litla erlenda samkeppni. Vegna þess annars vegar að innlend kjötframleiðsla hefur ekki annað innanlandseftirspurn undanfarin ár og hins vegar vegna þess að samið hefur verið við Evrópusambandið um stækkun gagnkvæmra tollfrjálsra innflutningskvóta fyrir búvörur hefur innflutningur á kjöti aukist talsvert á undanförnum misserum. „Ætla má að sú samkeppni verði bæði góð fyrir neytendur og sömuleiðis fyrir greinina sjálfa til lengri tíma litið, þar sem hún hvetur til hagræðingar, vöruþróunar, nýsköpunar og bættrar markaðssetningar. Nærtækasta fordæmið er hvernig innlendir grænmetisframleiðendur náðu að stórauka framleiðslu sína á árunum eftir að leyfður var tollfrjáls innflutningur á agúrkum, tómötum og paprikum. Tíu árum eftir að sú breyting var gerð, höfðu innlendir grænmetisbændur aukið framleiðslu sína um 60%. Neytendur hafa aðgang að mun fjölbreyttara úrvali grænmetis, innlends og erlends, á betra verði og greinin er betur sett en áður,“ segir í umsögn FA.

Taka flutningsmenn mark á sjálfum sér?
Að lokum bendir FA á málflutning flutningsmanna frumvarpsins á öðrum vettvangi. Flutningsmenn eru báðir í þingflokki Framsóknarflokksins. Hinn 12. mars síðastliðinn birtist á vef Neytendasamtakanna svar frá 19. febrúar sl., sem Líneik Anna Sævarsdóttir, annar flutningsmanna, gefur fyrir hönd alls þingflokksins við spurningum samtakanna frá 9. febrúar sl. um matvælaverð á Íslandi. Í svarinu segir meðal annars: Aðhald neytenda við aðstæður fullkominnar samkeppni er öflugasta tækið. Fákeppnisaðstæður ger[a] neytendum erfiðara um vik að veita nauðsynlegt aðhald. Eftir því sem samkeppni á matvörumarkaði er meiri, bæði í vinnslu, dreifingu og smásölu, því lægra verði má búast við til neytenda.“

„Undir þetta getur FA tekið heils hugar. Ef flutningsmenn gera það líka draga þeir væntanlega frumvarp sitt til baka,“ segir í umsögn FA um þingmálið.

Umsögn FA til atvinnuveganefndar

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning