FA leggur til niðurfellingu og lækkun tryggingagjalds

26.03.2020

Félag atvinnurekenda leggur til að tryggingagjald fyrirtækja verði fellt niður í nokkra mánuði og lækkað í framhaldinu til að bregðast við rekstrarerfiðleikum vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar.

Í umsögn sinni um frumvarp fjármálaráðherra um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru bendir FA á að samkvæmt frumvarpinu séu gistináttagjald og bankaskattur einu skattarnir eða gjöldin sem falla niður. „Félagið hefði talið það skjótvirka og almenna aðgerð, sem gagnazt hefði mun fleiri fyrirtækjum, að tryggingagjald yrði fellt niður eða lækkað til skemmri eða lengri tíma. Lækkun tryggingagjalds til frambúðar er ein forsenda þess að fyrirtæki geti unnið sig upp úr öldudalnum og hiki ekki við að bæta við sig fólki á ný,“ segir í umsögn FA.

Tryggingagjald er ennþá heilu prósentustigi hærra en það var fyrir bankahrun, eins og sjá má á myndinni.

Tvískipting gjalddaga aðflutningsgjalda á meðal aðgerða
Í umsögninni er því fagnað að á meðal aðgerðanna sem kveðið er á um í frumvarpinu er tvískipting gjalddaga aðflutningsgjalda í tolli, en FA gerði tillögu um slíka lagabreytingu til fjármálaráðherra.

„FA gengur út frá því að þær aðgerðir sem í frumvarpinu felast séu ekki þær síðustu sem stjórnvöld grípa til vegna heimsfaraldursins og mun áfram verða í sambandi við ráðuneytin um hugsanlegar lagabreytingar, sem létt geti róður félagsmanna við þessar erfiðu aðstæður,“ segir í umsögn félagsins.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning