FA og ÍIV skrifa undir samstarfssamninga við indversk viðskiptasamtök

11.09.2019
Magnús Óli Ólafsson, formaður FA, og Balkrishan Goenka, forseti ASSOCHAM, skiptast á skjölum að viðstöddum forsetum landanna.

Félag atvinnurekenda (FA) og Íslensk-indverska viðskiptaráðið (ÍIV), sem FA hýsir og rekur, skrifuðu í dag undir samstarfssamninga við tvenn samtök í indversku viðskiptalífi. Forystumenn samtakanna skiptust síðan á skjölum í viðurvist Ram Nath Kovind, forseta Indlands, og Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á Indversk-íslensku viðskiptaþingi á Hótel Hilton Reykjavík Nordica.

Annars vegar er um að ræða samstarfssamning FA og ASSOCHAM, Associated Chambers of Commerce and Industry of India. ASSOCHAM er regnhlífarsamtök viðskiptaráða og atvinnurekendasamtaka á Indlandi, stofnuð árið 1920. Alls eiga um 300 samtök aðild að ASSOCHAM og þjóna þau samtals rúmlega 400 þúsund aðildarfyrirtækjum. Balkrishan Goenka, forseti ASSOCHAM, undirritaði samninginn fyrir hönd samtakanna. Goenka er jafnframt stjórnarformaður Welspun Group, sem er alþjóðlegt fyrirtæki með 26.000 starfsmenn í 50 löndum. Magnús Óli Ólafsson, formaður FA og forstjóri Innness, undirritaði fyrir hönd Félags atvinnurekenda.

Hins vegar er samstarfsyfirlýsing ÍIV og Indversk-íslensku viðskiptasamtakanna (Indo-Icelandic Business Association, IIBA). IIBA var stofnað 2010 og hefur það hlutverk að styrkja og efla viðskipti, fjárfestingar og tvíhliða tengsl milli Íslands og Indlands.

Forsetarnir klappa er Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, og Prasoon Dewan, formaður IIBA, skiptast á skjölum.

Samkomulögin kveða á um samstarf samtakanna um að efla verslunar- og viðskiptatengsl á milli Íslands og Indlands með ýmsum ráðum, t.d., reglulegum samráðsfundum, skiptum á upplýsingum og gagnkvæmri aðstoð við að koma á viðskiptasamböndum, svo eitthvað sé nefnt.

Samtök iðnaðarins undirrituðu einnig samstarfssamning við ASSOCHAM.

Samstarfssamningur FA og ASSOCHAM

Samstarfsyfirlýsing ÍIV og IIBA

Nýjar fréttir

Innskráning