FA og Rafiðnaðarsambandið undirrita kjarasamning

14.06.2019
Björn Ágúst Sigurjónsson hjá Rafiðnaðarsambandinu og Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, takast í hendur við undirritun samningsins.

Félag atvinnurekenda og Rafiðnaðarsamband Íslands undirrituðu kjarasamning í dag.

Samningurinn er í öllum aðalatriðum samhljóða samningum FA við VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna og Grafíu, stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum, sem undirritaðir voru í apríl og maí. Þannig eru launabreytingar og forsendur samninganna þær sömu.

Samið var um styttingu vinnuvikunnar um rúmlega eina og hálfa klukkustund, þannig að virkur vinnutími fari úr 37 stundum og fimm mínútum í 35 stundir og 30 mínútur. Kemur sú breyting til framkvæmda í áföngum, 1. apríl á næsta ári og 1. apríl 2021. Heimilt verður að skipuleggja dagvinnu á tímabilinu 7 til 19. Samningurinn gerir ráð fyrir að atvinnurekandi hafi samráð við starfsmenn um styttingu vinnutímans á hverjum vinnustað.

Samhliða styttingu vinnutímans koma inn í samninginn ný ákvæði um yfirvinnu, sem taka gildi á næsta ári. Hún skiptist framvegis í yfirvinnu 1, sem greiðist með tímakaupi sem samsvarar 1% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu, og yfirvinnu 2, sem er greidd fyrir virkan vinnutíma umfram 41 klst. á viku að meðaltali á launatímabili eða mánuði. Yfirvinna 2 greiðist með tímakaupi sem samsvarar 1,15% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Kynningarfundur 19. júní
Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki stjórnar FA. Hann verður kynntur félagsmönnum á félagsfundi kl. 10 miðvikudaginn 19. júní, eins og lög félagsins kveða á um. Félagsfundurinn verður haldinn í fundarsal FA á 9. hæð í Húsi verslunarinnar.

Félagsmenn geta skráð sig á kynningarfundinn um kjarasamninginn hér að neðan.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning