FA og viðskiptaráð félagsins funda með utanríkisráðherra

04.04.2022
Frá fundinum í utanríkisráðuneytinu. Frá vinstri: Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA og viðskiptaráðanna, Guðmundur R. Sigtryggsson formaður ÍTV, Jónína Bjartmarz formaður ÍKV, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, Margrét Guðmundsdóttir stjórnarmaður í ÍEV, Bala Kamallakharan formaður ÍIV og Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri.

Framkvæmdastjóri FA og fulltrúar milliríkjaviðskiptaráða félagsins áttu í morgun góðan fund með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, Martin Eyjólfssyni ráðuneytisstjóra og embættismönnum viðskiptaskrifstofu ráðuneytisins. Þetta er fyrsti árlegi fundur utanríkisráðherra með framkvæmdastjóra og formönnum viðskiptaráða FA, en samstarfssamningur sem undirritaður var í fyrra, kveður á um slíkan árlegan fund. 

FA rekur Íslensk-evrópska verslunarráðið (ÍEV), Íslensk-kínverska viðskiptaráðið (ÍKV), Íslensk-indverska viðskiptaráðið (ÍIV) og Íslensk-taílenska viðskiptaráðið (ÍTV). Framkvæmdastjóri FA er jafnframt framkvæmdastjóri ráðanna.

Rætt um stöðuna í fríverslunarviðræðum
Á fundinum í dag var m.a. rætt um stöðu tvíhliða samnings Íslands og Evrópusambandsins um fríverslun með búvörur og viðræður við Evrópusambandið um aukið tollfrelsi fyrir sjávarafurðir. Þá var rætt um stöðu og verklag við innleiðingu EES-reglna.

Farið var yfir stöðuna í fríverslunarviðræðum Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) við Indland og Taíland og ýmis álitamál varðandi framkvæmd fríverslunarsamnings Íslands og Kína. Upplýst var á fundinum að til stæði að undirrita nýja bókun við síðarnefnda samninginn til að liðka fyrir heilbrigðisskoðun á sjávarafurðum, en tafir á heilbrigðisskoðun íslenskra afurða við innflutning til Kína eftir að heimsfaraldur kórónaveirunnar hófst hafa valdið útflutningsfyrirtækjum verulegum vandræðum og tjóni. 

Þá var rætt um viðskiptaþvinganir vegna innrásar Rússlands í Úkraínu og þau áhrif sem stríðsreksturinn í Úkraínu hefur haft á viðskipti og pólitísk samskipti við Evrópusambandið, Kína og Indland. 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning