FA og VR/LÍV skrifa undir samning – hvetja stjórnvöld til tollalækkana

13.12.2022
Guðrún Ragna Garðarsdóttir, formaður FA, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR/LÍV, takast í hendur að lokinni undirritun samningsins.

Félag atvinnurekenda hefur skrifað undir kjarasamning við VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna, sem er í öllum meginatriðum samhljóða samningi VR/LÍV við Samtök atvinnulífsins, sem undirritaður var í gær. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki stjórnar félagsins og verður kynntur fyrir félagsmönnum á fundi á fimmtudag.

Stjórnvöld fari í afnám og lækkun tolla
FA og samtök verslunarmanna undirrituðu sérstaka bókun við samninginn, svohljóðandi: „Aðilar sammælast um að óska eftir því við stjórnvöld að farið verði í vinnu við að afnema og lækka tolla í þágu neytenda. Lækkun tolla er ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega. Að mati samningsaðila væri góð byrjun að afnema tolla sem vernda enga hefðbundna innlenda landbúnaðarframleiðslu.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, fagnar því að sátt hafi náðst á stórum hluta vinnumarkaðarins við erfiðar aðstæður verðbólgu og hækkandi vaxtastigs. „Við munum gera okkar til að stuðla að því að ná stöðugleika í verðlagi. Við teljum hins vegar að stjórnvöld hafi misst af tækifæri til að tryggja neytendum frekari kjarabætur og lækka matvælaverð með því að kveða á um tollalækkanir í yfirlýsingu sinni í gær. Við og viðsemjendur okkar beinum því til ríkisstjórnarinnar að skoða þau mál. Það er hægt að byrja á tollunum sem vernda enga hefðbundna innlenda framleiðslu, en þeir eru fjölmargir.“

Laun og uppbætur hækka
Samkvæmt samningnum hækka laun um 6,75% frá 1. nóvember sl. og lægstu taxtar meira. Hámarkslaunahækkun getur þó orðið 66.000 krónur á mánuði. Með samningnum er hagvaxtarauka vegna ársins 2022, sem hefði átt að koma til greiðslu 1. maí á næsta ári, flýtt til 1. nóvember og telst hann að fullu efndur. Desemberuppbót hækkar og verður 103.000 kr. fyrir fullt starf á árinu 2023. Orlofsuppbót á orlofsárinu sem hefst 1. maí nk. verður 56.000 krónur miðað við fullt starf.

Kjarasamningur FA og VR/LÍV

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning