FA og VR/LÍV undirrita kjarasamning

14.03.2024

Félag atvinnurekenda undirritaði í morgun kjarasamning við VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna. Samningurinn er í öllum meginatriðum sambærilegur við samning VR/LÍV við Samtök atvinnulífsins, sem undirritaður var í nótt.

Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki stjórnar félagsins og verður kynntur fyrir félagsmönnum á fundi næstkomandi mánudag.

Launabreytingar í samningnum eru þær sömu og í samningi SA og VR/LÍV. Laun hækka frá 1. febrúar, að lágmarki um 23.750 kr. en annars um 3,25%. Árlegar launahækkanir út gildistíma samningsins til 1. febrúar 2028 eru 3,5%, en að lágmarki 23.750 kr. Þá eru í samningnum sambærileg ákvæði um forsendur, kauptaxtaauka og framleiðniauka og í samningi SA og verslunarmanna.

Samningurinn kveður á um hraðari ávinnslu orlofs en verið hefur og inniheldur m.a. ný ákvæði um fjarvinnu.

Meginmarkmið samningsins er að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. „Til þess að þetta markmið gangi eftir þurfa allir; fyrirtækin í landinu, ríki og sveitarfélög, að leggjast á eitt að halda verð- og gjaldskrárhækkunum í lágmarki þannig að forsendur samningsins haldi,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Við hvetjum okkar félagsmenn til að leggja sitt af mörkum í því efni og gerum skýra kröfu til hins opinbera að það standi við sitt.“

Frá undirritun samningsins í morgun. Frá vinstri: Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar LÍV, Guðrún Ragna Garðarsdóttir, formaður FA, og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og LÍV.

Kjarasamningur FA og VR/LÍV

Nýjar fréttir

1. maí 2024

Innskráning