FA og VR/LÍV undirrita kjarasamning

05.04.2019
Frá undirritun kjarasamningsins. Frá vinstri: Stefán Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri VR, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og LÍV, Magnús Óli Ólafsson formaður FA og Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.

Félag atvinnurekenda undirritaði í dag kjarasamning við VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna. Samningurinn gildir til 1. nóvember 2022.

Samningurinn er í öllum meginatriðum samsvarandi lífskjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins, sem undirritaður var á miðvikudag, hvað varðar launa- og vinnutímabreytingar. Samningurinn verður kynntur á félagsfundi næstkomandi miðvikudag, 10. apríl, kl. 10. Á fimmtudag verður hann lagður fyrir stjórn FA til staðfestingar, eins og lög félagsins kveða á um.

17.000 króna hækkun á öll laun á árinu
Launahækkanir samkvæmt samningnum eru allar í krónum talið; engin ákvæði eru um prósentuhækkanir.

  • 2019  Öll laun hækka um kr. 17 þúsund á mánuði frá og með 1. apríl.
  • 2020  Taxtar hækka um kr. 24 þúsund á mánuði en almenn hækkun er kr. 18 þús. frá og með 1. apríl.
  • 2021  Taxtar hækka um kr. 24 þúsund á mánuði en almenn hækkun er kr. 15.750 frá og með 1. janúar.
  • 2022  Taxtar hækka um kr. 25 þúsund á mánuði en almenn hækkun er kr. 17.250 frá og með 1. janúar.

Tenging við hagvöxt
Auk þessa er í samningnum tenging við hagvaxtarstigið í landinu og hækka laun aukalega ef landsframleiðsla á mann eykst umfram tiltekin mörk. Þessi launahækkun skilar sér að fullu til félagsmanna VR/LÍV sem eru á taxtalaunum en 75% til þeirra sem taka laun umfram taxta og kemur til greiðslu í maí á hverju ári. Hagvaxtaraukinn er frá þrjú þúsund króna launahækkun á mánuði, ef hagvöxtur eykst um 1% eða meira, upp í þrettán þúsund krónur, ef hagvöxtur á mann eykst um 3% eða meira.

Launaþróunartrygging taxtalauna
Þriðji þáttur launahækkunar samkvæmt samningnum er launaþróunartrygging á taxtalaun sem greidd er út árlega og er markmiðið að tryggja að þeir félagsmenn sem taka laun samkvæmt töxtum fylgi almennri launaþróun, verði launaskrið á almennum vinnumarkaði. Launaþróunartryggingin er krónutöluhækkun sem bætist á kauptaxta 1. maí ár hvert. Borin verður saman launaþróun tiltekinna launataxta og launaþróun samkvæmt launavísitölu á milli desembermánaða ár hvert. Hækki launavísitalan meira en viðmiðunartaxtinn hækka allir kauptaxtar kjarasamninga um sömu krónutölu sem reiknast sem hlutfall umframhækkunarinnar af kauptaxta.

Orlofsuppbótarauki
Orlofsuppbót hækkar árlega um þúsund krónur, er 50 þúsund krónur á þessu ári og 53 þúsund krónur á árinu 2022. Auk þess verður greiddur 26 þúsund króna orlofsuppbótarauki til allra fyrir 2. maí 2019. Orlofsuppbót árið 2019 verður því samtals 76 þúsund krónur. Jafnframt er gert ráð fyrir að orlofsuppbótin, sem samkvæmt samningi VR/LÍV og FA á að greiðast 1. júní, verði á þessu ári greidd ekki síðar en 2. maí.

Stytting vinnuviku um 45 mínútur
Í samningnum eru ákvæði um að vinnuvikan styttist um 45 mínútur og virkur vinnutími fari þannig úr 36 klukkustundum og 15 mínútum í 35 stundir og 30 mínútur. Styttingin kemur til framkvæmda um áramót og þarf að útfæra hana sérstaklega á hverjum vinnustað. Útfærslur gætu til dæmis verið að hver vinnudagur styttist um níu mínútur, að annan hvern föstudag sé unnið 90 mínútum skemur, að fólk safni aukafrídögum til lengri tíma o.s.frv.

Skilgreining dagvinnu rýmri en í samningum SA
Eftir sem áður er talsverður munur á heildarkjarasamningi FA og VR/LÍV og samningi sömu aðila við SA. Samningur FA er opnari og sveigjanlegri og má nefna að skilgreining dagvinnutímabils er mun rýmri en í samningi VR/LÍV og SA. Þannig má vinna umsaminn hámarksdagvinnutíma samkvæmt samningnum hvenær sem er á tímabilinu frá kl. 7 til kl. 19, en þrengri skilgreiningar eru í samningum SA.

 

Nýjar fréttir

Innskráning