FA óskar viðbragða við áliti SE um samkeppni á flutningamarkaði: Ekki hægt að sætta sig við tómlæti og aðgerðaleysi

18.10.2023

Félag atvinnurekenda hefur sent innviðaráðherra, borgarstjóranum í Reykjavík og hafnarstjóra Faxaflóahafna erindi og farið fram á viðbrögð við áliti Samkeppniseftirlitsins (SE), sem gefið var út í byrjun september, um leiðir til að efla samkeppni á flutningamarkaði. Álitið var sett fram í framhaldi af ákvörðun SE í máli Samskipa, en þar er upplýst um umfangsmikil samkeppnisbrot skipafélaganna Samskipa og Eimskips, sem valdið hafa þúsundum fyrirtækja og öllum þorra neytenda verulegu tjóni.

Áliti SE var m.a. beint til innviðaráðherra, Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna. Hvað Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir varðar, snúa tilmælin einkum að því að tryggt verði að nýir og minni aðilar geti fengið aðstöðu og viðeigandi þjónustu í Sundahöfn og eftir atvikum öðrum höfnum, sem geri þeim að keppa án mismununar við stærri aðila í sjóflutningum. Tilmælin til innviðaráðherra snúa að því sama, auk þess að ráðherra hugi að aðgerðum sem hann hefur á valdi sínu ti þess að efla samkeppni í landflutningum og skapa aukið aðhald gagnvart nýrri eða sértækri gjaldtöku á flutningamörkuðum.

Fyrirtækin kvarta undan ónógri samkeppni og háum flutningskostnaði
Í erindi FA til innviðaráðherra segir m.a.: „Í Félagi atvinnurekenda er fjöldi inn- og útflutningsfyrirtækja. Þau hafa upp til hópa kvartað árum saman yfir ónógri samkeppni í flutningaþjónustu og hárri verðlagningu stóru skipafélaganna. Undanfarin misseri hefur óánægja með verðlagningu í skipaflutningum farið enn vaxandi og hefur FA fengið fjölda ábendinga frá félagsmönnum um ónóga samkeppni, ógegnsæja verðlagningu, meðal annars í formi sértækra gjalda sem leggjast ofan á aðra gjaldskrá, og mismunun, sem m.a. felst í því að erlendir birgjar fá lægri tilboð í nákvæmlega sömu flutninga en íslenzk innflutningsfyrirtæki. Fyrirtæki sem stunda milliríkjaverzlun eiga gríðarlega mikið undir því að virk og eðlileg samkeppni ríki í flutningum og að fákeppni á flutningamarkaði, sem meðal annars helgast af hinni þægilegu aðstöðu sem skipafélögin hafa komið sér í við Sundin, verði brotin upp.“

Óskað svara við spurningum
FA spyr ráðherra, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir til hvaða ráðstafana þessir aðilar hafi gripið í framhaldi af áliti SE og hvort einhver vinna hafi verið sett í gang. Þá er spurt hver stefna þessara aðila sé varðandi skipulag og rekstur Sundahafnar með tilliti til samkeppnismála og aðgangs keppinauta stóru skipafélaganna að hafnaraðstöðu og skipaafgreiðslu. Ráðherra er jafnframt spurður út í stefnu sína varðandi aðgerðir til að efla samkeppni í landflutningum og til að auka aðhald gagnvart nýrri eða sértækri gjaldtöku á flutningamörkuðum. Allir viðtakendur erindisins eru beðnir um að gera grein fyrir tímaramma þeirra aðgerða, sem þeir hyggjast ráðast í.

Ekki hægt að una við tómlæti og aðgerðaleysi
„Í áliti Samkeppniseftirlitsins kemur fram að tilmælum stofnunarinnar frá 2008 um að stjórnvöld stuðluðu að aukinni samkeppni á flutningamarkaði hafi í engu verið sinnt. Fyrirtækin innan raða Félags atvinnurekenda geta engan veginn unað því að í þetta sinn verði tómlæti og aðgerðaleysi stjórnvalda það sama,“ segir í bréfi FA til ráðherra. „Aðgerða er þörf til að efla samkeppni á flutningamarkaðnum og stuðla að lækkun flutningskostnaðar. Óskað er svars við erindi þessu hið fyrsta.“

Erindi FA til innviðaráðherra
Erindi FA til borgarstjórans í Reykjavík
Erindi FA til hafnarstjóra Faxaflóahafna

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning