Félag atvinnurekenda undirritaði í dag nýjan kjarasamning við VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna.
Samningurinn er að miklu leyti sambærilegur þeim sem sömu stéttarfélög hafa gert við Samtök atvinnulífsins, með sömu launahækkunum. Lágmarkslaun samkvæmt samningi FA og VR/LÍV verða í lok samningstímabilsins rétt um 300 þúsund krónur á mánuði.
Ákvæði um sveigjanlegan dagvinnutíma, svipuð þeim sem hafa verið til umræðu í kjaraviðræðum SA og stéttarfélaganna, eru þegar komin inn í samninga FA við verzlunarmenn og tillit tekið til þeirra í launatöxtum samningsins.
Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki stjórnar Félags atvinnurekenda. Hann verður kynntur nánar fyrir félagsmönnum á næstunni.
„Það er mikið fagnaðarefni að það skuli hafa tekist að afstýra verkföllum og semja til þetta langs tíma, sem eykur fyrirsjáanleika í rekstri aðildafyrirtækja FA,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að bæði atvinnulífið og stjórnvöld leggist á eitt að varðveita verðstöðugleika og tryggja að kaupmáttaraukning skili sér til launþega. Við teljum að ríkisstjórnin ætti í því skyni að ganga heldur lengra í því að afnema tolla og gjöld en gert er í yfirlýsingu hennar vegna kjarasamninganna.“