FA skorar á Alþingi að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum

21.11.2016

IMG_0302Félag atvinnurekenda skorar á nýtt Alþingi að nema hið fyrsta úr gildi undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Í nýjum úrskurði Áfrýjunarnefndar samkeppnismála kemst meirihluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að ákvæði búvörulaga víki samkeppnislögum til hliðar og Mjólkursamsölunni hafi verið heimilt að mismuna keppinautum sínum með því að selja þeim hrámjólk á hærra verði en samstarfsfyrirtækjum MS.

„Það er með öllu ótækt að önnur lög gildi um mjólkuriðnaðinn en annað atvinnulíf í landinu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Á fundi FA fyrir kosningar með fulltrúum stjórnmálaflokkanna kom fram að fimm flokkar af sjö sem nú eiga menn á þingi eru fylgjandi því að undanþága mjólkuriðnaðarins verði afnumin. Það er augljóslega meirihluti á Alþingi fyrir því að breyta búvörulögum að þessu leyti. Þetta markmið þarf jafnframt að hafa í huga við boðaða endurskoðun búvörusamninga ríkisins og Bændasamtaka Íslands, því að í þeim eru ákvæði sem festa einokunarstöðu MS og undanþáguna frá samkeppnislögum í sessi.“

Málinu ekki lokið
Ólafur segir að málið snúist að stórum hluta um það hvort að búvörulög heimili samkeppnislagabrot. „Hér er deilt um hvort háttsemi sem alla jafna er refsiverð og siðferðislega ámælisverð sé ekki refsiverð í tilfelli eins fyrirtækis á einum mikilvægasta neytendamarkaði okkar samfélags. Það er því deilt um það hvort búvörulög opni á þann möguleika að MS geti með löglegum hætti sem markaðsráðandi fyrirtæki bundist samtökum um það við aðra aðila á markaði að mismuna ákveðnum keppinautum í verðlagningu á ómissandi vöru. Meirihluti nefndarinnar telur þetta heimilt en minnihlutinn ekki. Í ljósi þess að Samkeppniseftirlitið hefur sjálfstæða heimild til að bera þessar niðurstöðu undir dóm verður að telja líklegt að þessu máli sé langt frá því að vera lokið. Spilar þar stóran þátt hversu mikilvægur þessi markaður er, hversu skaðleg þessi háttsemi er, sem og sú staðreynd að afstaða áfrýjunarnefndarinnar er ekki afgerandi.“

Þung viðurlög séu við að tefja rannsókn
Ólafur segir að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar staðfesti hins vegar það sem FA hafi átalið, að MS hafi haldið gögnum frá Samkeppniseftirlitinu við rannsókn málsins. Er MS gerð 40 milljóna króna sekt vegna þess brots. „Það gengur ekki að fyrirtæki sem grunuð eru um samkeppnislagabrot geti tafið rannsókn þeirra með því að halda gögnum frá yfirvöldum. Það þurfa því að vera þung viðurlög við slíkum brotum,“ segir hann.

 

Nýjar fréttir

Innskráning