FA skrifar fjármálaráðherra: Beiti sér fyrir endurskoðun á fasteignagjöldum

31.01.2019
Frétt Viðskiptablaðsins af viðtalinu við Bjarna.

Félag atvinnurekenda hefur skrifað Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og hvatt hann til að taka upp viðræður við sveitarfélögin um hvernig koma megi útreikningi og álagningu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði í „lögmætt, gegnsætt og skynsamlegt horf.“

Í bréfinu er vísað til viðtals við Bjarna í riti Frjálsrar verslunar, 300 stærstu 2017/2018, sem út kom í síðasta mánuði. Þar var fjallað um gífurlegar hækkanir á fasteignamati atvinnuhúsnæðis og þar með á skattbyrði fyrirtækja. „Þótt hækkun fasteignamats haldist stundum í hendur við hækkun tekna þá er engin trygging fyrir því að svo sé,“ er haft eftir ráðherra í viðtalinu. „Það getur haft þær afleiðingar að án þess að fólk hafi mikið meira á milli handanna hafi fasteignagjöldin, vegna einhverrar stöðu sem kemur upp á fasteignamarkaði, hækkað mjög verulega. Þetta hefur aukið skattlagningu og á síðustu árum erum við með mjög skýr dæmi um að þetta bitnar með mjög ósanngjörnum hætti á mörgum. Ég held að það sé full ástæða til að skoða þetta. Ef við ætlum að breyta þessu þá þarf að gera það í samhengi við tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.“

FA fagnar í bréfinu þessum ummælum ráðherra. Að mati félagsins ríkir ólögmætt og ótækt ástand hvað varðar fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Skattbyrði fyrirtækja vegna fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði hefur þyngst mjög á síðustu árum. Þannig voru fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði á landinu öllu rétt tæpir 16 milljarðar króna árið 2014. Á síðasta ári voru þau tæplega 23 milljarðar. Sjö milljarða króna hækkun á fjórum árum samsvarar um 44% hækkun, sem er langt umfram verðlagsþróun eða önnur skynsamleg viðmið. Oft og iðulega er ekkert að gerast í afkomu eða greiðslugetu fyrirtækjanna sem auðveldar þeim að standa undir sífellt þyngri skattbyrði.

Atvinnuhúsnæði í Kópavogi.

Á meðal þeirra röksemda sem FA tiltekur í bréfinu fyrir nauðsyn endurskoðunar á fasteignagjöldunum eru þessar:

  • Dæmi eru um það í hópi félagsmanna FA að fasteignagjöld hafi tvöfaldast á þremur árum. Fyrirtæki sem árið 2014 greiddi 667.590 krónur af 80 fermetra fasteign í Kringlunni greiddi árið 2017 1.321.650 krónur.
  • Þjóðskrá beitir svokallaðri tekjumatsaðferð sem meginreglu við að finna út fasteignamat atvinnuhúsnæðis. Aðferðin gengur út á að finna markaðsverð leigu á atvinnuhúsnæði og umreikna til gangverðs með flóknum reikniformúlum. FA telur að samkvæmt lögum sé eingöngu heimilt að beita þessari aðferð ef gangverð fasteignarinnar er ekki þekkt, en á því er algjör misbrestur. Þarna þurfi því að skýra lagaákvæði.
  • Í greinargerð með frumvarpi til laga um tekjustofna sveitarfélaga á sínum tíma kom fram að fasteignagjöld ættu ekki að vera eignarskattur heldur endurgjald fyrir veitta þjónustu. Sveitarfélögin hafa ekki svarað efnislega beiðni FA um kostnaðarútreikninga, sem liggi að baki gjaldtökunni, en þjónustugjöld verða samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar að byggjast á kostnaði við þjónustuna.
  • Í lögunum um tekjustofna sveitarfélaga er heimild fyrir sveitarfélög að leggja 25% ofan á 1,32% af fasteignamati, sem er sú hámarksálagningarprósenta sem lögin kveða á um í grunninn. Langflest sveitarfélög nýta þessa heimild og leggja á gjald upp á 1,65% af fasteignamati. Óljóst er samkvæmt lögunum við hvaða skilyrði sveitarfélögum er heimilt að beita álaginu. Sveitarfélögin hafa ekki svarað efnislega beiðni FA um rökstuðning fyrir beitingu álagsins.
  • Að mati FA mælir lagaákvæðið um 25% álag við innheimtu fasteignagjalda fyrir um valkvæða skattlagningu, í beinni andstöðu við ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá er nýting heimildarinnar órökstudd, málefnalegar ástæður engar, skyldubundið mat og meðalhóf með öllu sniðgengið.
  • Vegna hækkana á fasteignamati og þar með fasteignagjöldum neyðast leigusalar iðulega til að hækka leigu. Hækkun á leigutekjunum leiðir samkvæmt tekjumatsaðferðinni til hækkunar á fasteignamati, sem aftur leiðir til hækkunar á fasteignagjöldum, sem leiðir til hækkunar á leigu – og þannig halda víxlhækkanir fasteignamats og leigu áfram. Fasteignamat eignar hækkar þá ár frá ári þótt gangverðið sé óbreytt. „Hér er augljóslega búið að koma á ástandi sem gengur gegn allri sanngirni og heilbrigðri skynsemi,“ segir í bréfi FA.
  • Við beitingu tekjuaðferðarinnar er í hinni flóknu reikniformúlu miðað við svokallaða matsvæðisstuðla, sem eru mjög mismunandi eftir svæðum. Ekki hafa verið færðar fram neinar forsendur eða réttlætanlegar ástæður fyrir þessum mun. Ef aftur er horft til forsendunnar um að fasteignagjöld skuli vera endurgjald fyrir veitta þjónustu, þá getur ekki verið að það kosti t.d. Reykjavíkurborg miklu minna að þjónusta fyrirtæki á Kjalarnesi en í Kringlunni.
  • Útreikningar Þjóðskrár standast ekki þá skýrleikakröfu sem stjórnarskráin gerir til skatta. Hinar flóknu reikniformúlur og órökstuddu matsstuðlar gera að verkum að gjaldendum fasteignaskattsins er fyrirmunað að átta sig á því hvernig skatturinn er reiknaður út og þeir geta þannig ekki séð fyrir íþyngjandi íhlutun hins opinbera.

„Að mati Félags atvinnurekenda ber hér allt að sama brunni,“ segir í erindi FA til ráðherra. „Sveitarfélög sækja sér óeðlilegar hækkanir á skatttekjum til fyrirtækja með ógegnsæjum, ósanngjörnum og ólögmætum hætti. Félagið dregur ekki í efa réttmæti þess að fyrirtæki greiði gjöld, sem standi undir kostnaði sveitarfélaganna af þjónustu við þau, en telur þetta skattaumhverfi ekki geta gengið lengur. Félagið hvetur ráðherra því eindregið til að taka upp viðræður við sveitarfélögin um hvernig megi koma þessari gjaldtöku í lögmætt, gegnsætt og skynsamlegt horf. Félagið er að sjálfsögðu reiðubúið að funda með ráðuneytinu og/eða sveitarfélögum til að leita leiða til lausnar.“

Bréf FA til fjármálaráðherra

 

 

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning