FA skrifar fjármálaráðherra: Heimild til tvískiptingar gjalddaga aðflutningsgjalda verði endurnýjuð

13.03.2020

Félag atvinnurekenda hefur sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra erindi og hvatt ráðherra til að flytja sem allra fyrst frumvarp til að endurnýja heimild innflutningsfyrirtækja til að tvískipta gjalddögum aðflutningsgjalda í tolli.

Slík heimild var sett á til bráðabirgða strax eftir hrun og greiddi götu innflutningsfyrirtækja, sem þá voru í greiðsluerfiðleikum. Hún var síðan endurnýjuð reglubundið en féll úr gildi í árslok 2016 með vísan til betri stöðu í efnahagslífinu.

FA bendir í bréfi sínu til ráðherra á að nú sé augljóslega ný staða uppi. Mörg fyrirtæki muni fyrirsjáanlega lenda í vandkvæðum og væri endurnýjun heimildarinnar til tvískiptingar gjalddaga aðflutningsgjalda í tolli ein af mörgum aðgerðum sem myndi fleyta atvinnulífinu yfir erfiðleikana framundan.

Fyrirtæki taka á sig byrðar vegna viðbúnaðar
„Aðgerðin er þeim mun brýnni sem fyrirtæki hafa tekið á sig fjárútlát í þágu viðbúnaðar vegna heimsfaraldursins. Nefna má að lyfjafyrirtæki hafa brugðizt við tilmælum Lyfjastofnunar um að auka birgðir af nauðsynlegum lyfjum með því að stækka pantanir, í samræmi við kafla 8.14 í viðbragðsáætlun almannavarna vegna heimsfaraldurs. Það eykur verulega fjárbindingu umræddra fyrirtækja í birgðum. Ennfremur hafa matvælainnflutningsfyrirtæki pantað inn meira en vanalega af vörum sem eru á lista yfir æskilegt birgðahald heimila í inflúensufaraldri, samkvæmt kafla 8.19 í viðbragðsáætluninni. Sömu rök eiga við um fjárbindingu í þeim birgðum,“ segir í erindi FA.

„Í þessu ljósi vill Félag atvinnurekenda beina þeim eindregnu tilmælum til ráðherra að hann flytji frumvarp sambærilegt fyrri frumvörpum um bráðabirgðaheimild til að tvískipta gjalddögum aðflutningsgjalda í tolli. Bent er á að aðgerð þessi þolir enga bið.“

Erindi FA til ráðherra

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning