FA skrifar forsætisráðherra: Vantar nýja stefnu um einföldun regluverks atvinnulífsins

08.03.2017

Félag atvinnurekenda hefur skrifað Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra bréf þar sem félagið gerir að tillögu sinni að mörkuð verði ný og skilvirkari stefna um einföldun regluverks atvinnulífsins.

Vísað er m.a. til viðtals við Bjarna í Morgunblaðinu sl. laugardag, þar sem hann nefndi að undanfarin ár hefði verið unnið eftir þeirri reglu að ekki komi inn ný íþyngjandi lög eða reglur án þess að sambærileg íþyngjandi regla verði afnumin. FA vísar til nýlegrar skýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur, sem sýnir fram á að þetta markmið náðist alls ekki á síðasta kjörtímabili, þvert á móti voru áhrifin í öfuga átt og reglubyrði atvinnulífsins þyngdist.

Á meðal ástæðnanna er sú tilhneiging ráðuneytanna að bæta íþyngjandi kvöðum við frumvörp, sem sett eru til innleiðingar á EES-reglum. FA segir að nýjasta og eitt skýrasta dæmið sé drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra um rafrettur.

FA bendir á að núverandi ríkisstjórn hafi ekki sett sér sérstaka stefnu um einföldun regluverks atvinnulífsins og ekki séu ákvæði um slíkt í stjórnarsáttmálanum. FA gangi hins vegar út frá því að vilji sé til þess að marka slíka stefnu. Að mati félagsins ætti hún meðal annars að innihalda eftirfarandi þætti:

  • Gera þarf þá kröfu til ráðuneytanna að þau birti með lagafrumvörpum mat á kostnaði og ávinningi fyrir atvinnulífið, þegar það á við. Hér telur FA að komi sterklega til greina að hrinda í framkvæmt tillögum Samkeppniseftirlitsins og Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um að íslenzk stjórnvöld taki upp svokallað samkeppnismat, aðferðafræði sem þróuð hefur verið á vettvangi OECD og gefið góða raun til að létta reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni í ýmsum aðildarríkjum.
  • Samkeppnismatinu mætti jafnframt beita til að fara yfir gildandi löggjöf, greina samkeppnishömlur og íþyngjandi kvaðir fyrir atvinnulífið og gera úrbætur.
  • Setja ætti skýra reglu um að engar nýjar íþyngjandi kvaðir verði lagðar á atvinnulífið nema í staðinn falli brott jafnveigamiklar kvaðir og gera að þessu sinni árlega mælingu á því hvort henni hafi verið fylgt.
  • Gera á þá kröfu til ráðuneytanna að þau tilgreini nákvæmlega í greinargerð með frumvörpum til innleiðingar EES-reglna 1) hvaða ákvæði eru til innleiðingar á Evrópureglunum, 2) hvaða ákvæði eru umfram það sem nauðsynlegt er vegna innleiðingar Evrópureglna og hver sé rökstuðningurinn fyrir að ganga lengra en þær kveða á um og 3) hvaða svigrúm er gefið í viðkomandi tilskipun eða reglugerð til minna íþyngjandi innleiðingar.

FA þakkar fyrir nýlegt boð forsætisráðuneytisins um að félagið tilnefni fulltrúa með seturétt, málfrelsi og tillögurétt í ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur og lýsir sig reiðubúið til samstarfs við ráðuneytið um mörkun nýrrar stefnu í þessum málum sem geti stuðlað að aukinni skilvirkni og framleiðni í atvinnulífinu og létt óþarfa kvöðum af fyrirtækjum, ekki síst þeim minni og meðalstóru.

Bréf FA til forsætisráðherra

Nýjar fréttir

Innskráning