FA skrifar heilbrigðisráðherra: Mikil breyting á gosneyslu frá nýjustu tölum landlæknis

11.11.2019

Félag atvinnurekenda hefur skrifað Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra bréf, í tilefni af fréttum um að ráðherra hafi stofnað starfshóp til að útfæra tillögur um sykurskatt. Þar eru rakin fyrri bréf FA til ráðuneytisins, þar sem félagið býður fram samstarf við ráðuneytið og stofnanir þess um að tryggja að vinna stjórnvalda byggi á réttum gögnum um sykurneyslu.

FA hefur ítrekað bent ráðherra á að tillögur Landlæknisembættisins um upptöku sykurskatts séu byggðar á gömlum, úreltum og/eða röngum gögnum. Í maí í fyrra, er viðraðar voru tillögur Landlæknisembættisins um sérstakan gosskatt, ritaði félagið ráðherra bréf og vakti athygli á því að Landlæknisembættið vitnaði til 7-8 ára gamalla gagna Hagstofunnar, sem ættu að sýna að þriðjungur af neyslu viðbætts sykurs kæmi úr gosdrykkjum. FA gagnrýndi bæði að notuð væru gömul gögn og auk þess dregnar af þeim hæpnar ályktanir. Félagið vísaði til nýrra og áreiðanlegra gagna, sölutalna sem Markaðsgreining/AC Nielsen tekur reglulega saman og sýna að innan við fimmtungur sykurneyslu Íslendinga kemur úr gosdrykkjum. FA benti á að Landlæknisembættið hefði ekki sinnt óskum framleiðenda og innflytjenda gosdrykkja um samtal um það hvernig megi tryggja að gögn, sem embættið byggir tillögur sínar á, séu rétt. Ráðuneytið svaraði ekki þessu bréfi.

Mikil breyting hefur orðið á neyslumynstri gosdrykkja frá 2011, en frá því ári eru nýjustu tölur Landlæknisembættisins um gosdrykkjaneyslu.

Rangar tölur endurteknar
Félagið skrifaði ráðherra aftur 27. júní síðastliðinn og vísaði til blaðagreinar hennar, þar sem greint var frá aðgerðaáætlun Landlæknisembættisins í því skyni að draga úr neyslu sykurs. Þar var ný megintillaga embættisins skattur, sem ætti að leggjast á gosdrykki, jafnt sykraða sem ósykraða, og sælgæti. Hin ranga fullyrðing um að þriðjung neyslu viðbætts sykurs mætti rekja til gosdrykkja var þar endurtekin. FA benti á að talan virtist tekin upp úr áðurnefndri aðgerðaáætlun, en þar segir: „Gosdrykkir vógu þyngst í sykurneyslu fullorðinna í landskönnun 2010-2011 en um 34% viðbætts sykurs kom úr sykruðum gos- og svaladrykkjum.“ Í áætluninni, sem FA fékk senda frá Landlæknisembættinu, var ekki að finna neinn hlekk á útreikninga að baki þessari fullyrðingu. Ráðuneytið staðfesti síðar við FA að talan væri komin úr aðgerðaáætlun landlæknis.

Í bréfinu, sem FA sendi Svandísi í síðustu viku, er enn á ný lýst furðu á þeim vinnubrögðum að byggja tillögur um íþyngjandi skattlagningu á röngum og úreltum gögnum. „Félagið ítrekar mikilvægi þess að ákvarðanir um slíka skatta séu ekki teknar nema á grundvelli haldbærra, nýlegra gagna,“ segir í bréfi FA. „Félagið ítrekar því þriðja sinni boð sitt og félagsmanna sinna um samráð og samtal við ráðuneytið og stofnanir þess um hvernig megi tryggja að rétt gögn liggi fyrir við mótun opinberrar stefnu. Það er einlæg von félagsins að starfshópur ráðherra leiti réttra gagna, bæði hér á landi og erlendis, í stað þess að styðjast við samantektir Landlæknisembættisins, sem sýnir furðulegt áhugaleysi á að hafa það sem sannara reynist.“

Gjörbreyting á neyslumynstrinu frá nýjustu tölum Landlæknis
Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig neysla á sykruðum og ósykruðum gosdrykkjum hefur þróast frá árinu 2011, en frá því ári eru nýjustu tölurnar um neyslu gosdrykkja, sem Landlæknisembættið vitnar til í aðgerðaáætlun sinni. Hlutfall sykraðra gosdrykkja hefur lækkað úr um 60% í 40%, um leið og hlutdeild kolsýrðs vatns hefur vaxið úr 15% í 30% og hlutdeild sykurlausra drykkja haldist svipuð. „Starfshópur ráðherra hlýtur að taka mark á þessum tölum,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA. „Þær sýna svart á hvítu að neyslan breytist hratt án aðgerða stjórnvalda. Það er aukin vitund neytenda um skaðsemi ofneyslu á sykri og krafa þeirra um hollari vörur sem breytir vöruframboðinu hratt. Þróunin er mun hraðari hér á landi, án opinberrar neyslustýringar, en í ýmsum löndum sem hafa tekið upp gos- eða sykurskatta.“

Bréf FA til heilbrigðisráðherra

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning