FA skrifar landbúnaðarráðherra: Loforð um þjóðarsamtal svikið

22.01.2018

Félag atvinnurekenda hefur ekki fengið beiðni frá atvinnuvegaráðuneytinu um að tilnefna fulltrúa í endurskipaðan samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Þessu mótmælir félagið í bréfi til Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðarráðherra, og segir að með þessu sé svikið loforð sem gefið var við meðferð laga um búvörusamninga á Alþingi. FA tekur undir gagnrýni ungra bænda á að ráðherra hverfi frá breiðu samráði um búvörusamningana og hverfi til fortíðar, þar sem fáir koma að borðinu.

Í bréfi FA til ráðherra er minnt á að ákvæðið um samráðshóp kom inn í búvörulögin eftir að búvörusamningarnir höfðu orðið fyrir harðri gagnrýni af hálfu fulltrúa mjög breiðs hóps samtaka fyrirtækja og almennings í landinu. Vísað er til loforða Jóns Gunnarssonar, þáverandi formanns atvinnuveganefndar Alþingis, bæði á fundum með FA og í fjölmiðlum, um að félagið fái aðkomu að því „þjóðarsamtali“ sem hann vildi efna til í því skyni að skapa þjóðarsátt um landbúnaðinn.

FA fékk aðild að starfi hópsins í tíð síðustu ríkisstjórnar, en Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, vildi upphaflega halda FA og fleiri gagnrýnendum búvörusamninganna utan við samráðið og skipaði hóp þar sem viðsemjendur í búvörusamningunum, ríkið og Bændasamtökin, höfðu tvo þriðjuhluta fulltrúanna. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók hins vegar ákvörðun um að breikka hópinn.

FA segir starf hópsins hafa gengið vel og hafi jákvæður andi verið í umræðum á vettvangi hans, þrátt fyrir mismunandi sjónarmið. „FA hefur ekki séð neinn skynsamlegan rökstuðning frá ráðherra fyrir því að fækka í hópnum og þrengja þar með „þjóðarsamtalið“,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA.

„FA tekur eindregið undir þau sjónarmið sem fram koma í ályktun stjórnar Samtaka ungra bænda frá 18. janúar síðastliðnum, þar sem stefnubreytingu ráðherra er mótmælt og átalið að horfið skuli til fortíðar með skipan hóps þar sem fáir koma að borðinu í stað þess að viðhaft sé víðtækt samráð um endurskoðun búvörusamninganna. Félag atvinnurekenda tekur sömuleiðis undir þá kröfu ungra bænda að ráðherra endurskoði ákvörðun sína um endurskipan starfshópsins,“ segir í bréfi FA.

Bréf FA til ráðherra

 

Nýjar fréttir

Innskráning