FA skrifar Ríkiskaupum: Hvað líður farmiðaútboðinu?

27.10.2015

FlugmiðarFélag atvinnurekenda hefur sent Ríkiskaupum erindi og spurst fyrir um útboð á flugfarmiðum fyrir ríkið og stofnanir þess, sem enn hefur ekki farið fram, meira en þremur árum eftir að Ríkiskaup sögðu upp rammasamningi um farmiðakaup ríkisins og boðuðu að efnt yrði til nýs útboðs.

Í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins í mars síðastliðnum kom fram að stefnt væri að því að útboð færi fljótlega fram. „Er þess vænst að nýtt útboð fari fram á fyrri hluta þessa árs,“ stóð þar.

Þegar júnímánuður var liðinn og þar með fyrri hluti ársins sendi framkvæmdastjóri FA Ríkiskaupum fyrirspurn í tölvupósti um málið.  Í svarinu kom fram að málið hefði frestast en gert væri ráð fyrir að „auglýsa útboð á haustmánuðum.“

Í frétt á vefnum turisti.is 3. september síðastliðinn stóð: „ Samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum er þess háttar útboð nú í vinnslu og stefnt er að því að bjóða út öll flugmiðakaup stjórnarráðsins síðar í þessum mánuði.“

„Í ljósi þess að nú er fyrri hluti ársins liðinn, september liðinn, október senn á enda runninn og fyrsti vetrardagur að baki, leyfir FA sér að ítreka fyrirspurn sína um hvað líði þessu mikilvæga útboði,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, til Halldórs Sigurðssonar forstjóra Ríkiskaupa. „Félagið vekur enn fremur athygli á því að þar sem ótvíræð skylda hvílir á ríkinu að bjóða út farmiðakaupin, sem staðfest er með úrskurði kærunefndar útboðsmála frá því í apríl síðastliðnum, hefur ríkt ólögmætt ástand í þessum málum allt frá hausti 2012, eða í meira en þrjú ár. Mikilvægt er að binda enda á það sem fyrst.“

Bréf FA til Ríkiskaupa

Gagnrýni FA á fyrirkomulag farmiðakaupa hjá ríkinu

Nýjar fréttir

Innskráning