Félag atvinnurekenda hefur sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg erindi, þar sem hvatt er til að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði falli niður í þrjá mánuði og lækki að því loknu til frambúðar. Þessar aðgerðir myndu stuðla að því að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækja og launagreiðslur þeirra til starfsmanna og hvetur FA stjórn SÍS til að beita sér fyrir þeim.
Í erindinu til SÍS vísar FA til þeirra fordæmalausu aðstæðna sem nú ríkja í efnahagslífinu vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar. „Ljóst er að höggið vegna heimsfaraldursins mun verða þungt fyrir mörg fyrirtæki og ekki eingöngu í ferðaþjónustu og veitingageiranum þótt þau fái höggið fyrst. Eftirspurn hefur dregizt hratt saman í samfélaginu og flest fyrirtæki sjá fram á mikla erfiðleika,“ segir þar.
FA vísar jafnframt til fyrri erinda sinna og áskorana til sveitarfélaganna um að álagningarprósenta fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði verði lækkuð til að mæta gífurlegum hækkunum á fasteignamati. Þeim hefur í sumum tilvikum verið sinnt, en á heildina litið hefur skattbyrði fyrirtækja í landinu vegna fasteignaskatta hækkað gífurlega, eins og sjá má á myndinni að neðan. FA hefur ítrekað bent á að vöxtur skattbyrði fyrirtækja vegna fasteignaskatta sé ekki í neinu samræmi við þróun annarra stærða í rekstrinum og verði æ meira íþyngjandi.
Félag atvinnurekenda gerir að tillögu sinni að sveitarfélögin felli niður fasteignagjöld af atvinnuhúsnæði næstu 2-3 mánuði til að auðvelda fyrirtækjum að takast á við áfallið vegna COVID-19 faraldursins. Tekjutap sveitarfélaganna vegna þeirrar aðgerðar yrði einungis brot af þeim milljarðatekjum, sem runnið hafa í sveitarsjóðina vegna hækkana fasteignamats á undanförnum árum.
Í framhaldinu verði fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækkaður til frambúðar. Sveitarfélög sem hafa nýtt sér heimild í lögum til að leggja 25% álag á skattinn gætu til dæmis hætt því og innheimt 1,32% af fasteignamati í skatt af atvinnuhúsnæði, en lög gera ráð fyrir að það sé sú álagningarprósenta sem lögð er til grundvallar.
„Þessar aðgerðir myndu stuðla að því að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækja og launagreiðslur þeirra til starfsmanna og hvetur FA stjórn SÍS til að beita sér fyrir þeim. FA ítrekar að sveitarfélögin hljóta ásamt ríkisvaldinu að bera ábyrgð á að gera það sem hægt er að gera til að auðvelda fyrirtækjunum að komast yfir þá erfiðleika sem framundan eru. Í ljósi þess að gjaldtaka þeirra af fyrirtækjum í formi fasteignaskatta hefur í langflestum tilvikum hækkað um tugi prósenta á undanförnum árum, hlýtur að vera svigrúm til að draga úr skattheimtunni nú á þessum örlagatímum,“ segir í erindi FA.
Skattastefna borgarinnar orðin óverjandi
Félagið sendi sérstakt erindi á stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, en undanfarin ár hefur borgin haldið fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í lögboðnu hámarki eða 1,65% af fasteignamati. Á því árabili hækkuðu tekjur borgarinnar af skattinum um 6,3 milljarða króna eða 82% eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Á sama árabili hækkaði hlutdeild Reykjavíkur í tekjum af fasteignagjöldum á atvinnuhúsnæði á landinu öllu úr 50,2% í 52,2%. FA þótti því ástæða til að senda borginni sérstakt erindi vegna þessa mikilvæga máls.
„Sú skattastefna Reykjavíkurborgar sem áður er lýst er óæskileg og íþyngjandi út frá hagsmunum atvinnulífsins og samfélagsins alls, burtséð frá því efnahagslega áfalli sem nú þarf að vinna úr. Við núverandi aðstæður er hún einfaldlega orðin óverjandi,“ segir í bréfi FA til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.