FA skrifar undir viljayfirlýsingu gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi

11.01.2018
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA undirritaði viljayfirlýsinguna.

Félag atvinnurekenda skrifaði í morgun ásamt fleiri samtökum og fyrirtækjum undir viljayfirlýsingu um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Undirritunin fór fram í lok morgunverðarfundar sem haldinn var á vegum Vinnueftirlitsins, stjórnar Vinnueftirlitsins og Velferðarráðuneytisins.

Í yfirlýsingunni er rifjað upp að íslensk lög og reglur kveði á um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum skuli ekki liðið. Komi það upp skuli bregðast við því með markvissum hætti. Síðan segir í viljayfirlýsingunni:

„Öryggiskennd og góður starfsandi skipta sköpum fyrir vellíðan starfsmanna.

Á vinnustaðnum eigum við góð samskipti og virðum eftirfarandi sáttmála:

o Við þekkjum stefnu og viðbragðsáætlun vinnustaðarins gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi og erum meðvituð  um skyldur okkar.

o Við líðum ekki einelti, áreitni eða ofbeldi, beitum því ekki og vitum að  meðvirkni með  geranda getur skaðað starfsmenn og vinnustað okkar.

o Við berum sameiginlega ábyrgð á vinnuumhverfinu og leggjum okkar af mörkum til að bæta það enn frekar.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri og Magnús Óli Ólafsson, formaður FA, sóttu fund Vinnueftirlitsins.

o Við erum ólík, með mismunandi bakgrunn og lífsskoðanir, en sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum.

o Við skiljum að upplifun af samskiptum er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum og tilfinningum annarra.

o Við ræðum um framkomu sem okkur mislíkar og tökum upp varnir fyrir þá sem brotið er gegn.

o Við tökum tillit til ábendinga um að við getum bætt framkomu okkar.

o Við sýnum öðrum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum.“

Fjöldi forsvarsmanna samtaka, fyrirtækja og stofnana undirritaði yfirlýsinguna á fundinum, en þar var bókstaflega fullt út úr dyrum. Á næstunni stendur fyrirtækjum svo til boða að undirrita viljayfirlýsinguna rafrænt á vef Vinnueftirlitsins.

Vantar upp á að lagaskilyrði séu uppfyllt
Skylda vinnuveitanda til að tryggja starfsmönnum heilbrigt starfsumhverfi og vinna gegn hvers konar áreitni og ofbeldi er rík og endurspeglast hún í þeim skyldum sem lagðar eru á vinnuveitanda með reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Á fundinum kom hins vegar fram að mikill misbrestur er á að ákvæði reglugerðarinnar hafi verið innleidd á vinnustöðum. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra boðaði að hann myndi stofna starfshóp, sem meðal annars hefði það hlutverk að kanna hvort vinnuveitendur hefðu áhættumat og viðbragðsáætlun, í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Fullt var út úr dyrum á fundi Vinnueftirlitsins.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að félagið vilji leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn þeirri meinsemd sem lýst hefur verið í frásögnum kvenna undir merkjum #metoo. „Félag atvinnurekenda ítrekar tilboð sitt til félagsmanna um að aðstoða þá við að koma málum í sem best lag á sínum vinnustað. Við munum á næstunni standa fyrir frekari hvatningu fyrir aðildarfyrirtæki okkar að taka á þessum málum,“ segir Ólafur. „Það er mjög mikilvægt að taka á vandanum strax. Það er ekki bara lagaleg skylda vinnuveitenda, heldur líka siðferðileg.“

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning