FA spyr ráðherra um samkeppnishömlur á Keflavíkurflugvelli

07.03.2016

Keflavíkurflugvöllur þrengriFélag atvinnurekenda hefur skrifað Ólöfu Nordal innanríkisráðherra bréf og spurt hvað hún hafi gert til að bregðast við áliti Samkeppniseftirlitsins frá því í október, um samkeppnishindranir við úthlutun á brottfarartímum á Keflavíkurflugvelli.

Samkeppniseftirlitið beindi áliti til innanríkisráðherra 22. október, í framhaldi af kvörtun Wow Air vegna úthlutunar brottfarartíma á Keflavíkurflugvelli. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli raskaði samkeppni, til tjóns fyrir viðskiptavini, keppinauta í áætlunarflugi og samfélagið allt.

Í álitinu var þeim tilmælum beint til ráðherra að hún beiti sér fyrir „tafarlausum aðgerðum sem miði að því að draga úr þeim samkeppnishindrunum sem skilgreindar hafa verið í áliti þessu. Við þær aðgerðir verði hagsmunum almennings af virkri samkeppni í áætlunarflugi gefinn forgangur.“

Í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, til ráðherra, segir að félagið telji afar brýnt að stjórnvöld beiti sér til að tryggja virka samkeppni á flugmarkaði. „Stutt er síðan Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hvatti íslenzk stjórnvöld til að ganga harðar fram til að tryggja samkeppni og styðja betur við samkeppnisyfirvöld. Úthlutun brottfarartíma í Keflavík var eitt þeirra dæma sem stofnunin tiltók sérstaklega,“ segir í bréfinu.

Bent er á að engin viðbrögð við álitinu eða tilmælum Samkeppniseftirlitsins hafi komið frá ráðherra eða ráðuneytinu opinberlega. Félag atvinnurekenda leyfi sér því að spyrja:

  • Hefur ráðherra beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr samkeppnishindrunum við úthlutun brottfarartíma á Keflavíkurflugvelli?
  • Ef svo er, til hvaða aðgerða?
  • Ef ekki, hvers vegna ekki?

Bréf FA til innanríkisráðherra

Nýjar fréttir

Innskráning