FA styður breytingar í landbúnaðinum

17.05.2015

IMG_2493Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuveganefnd Alþingis jákvæðar umsagnir um þrjú frumvörp, sem miða að breytingum í landbúnaðinum.

FA styður aðskilnað ríkis og Bændasamtaka
Í fyrsta lagi er frumvarp Sigurðar Inga Jónssonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sem miðar að því að bregðast við athugasemdum Ríkisendurskoðunar við að Bændasamtökum Íslands hafi verið falin stjórnsýsluverkefni á vegum hins opinbera. Með frumvarpinu er ætlunin að skýra línur og færa lögbundin stjórnsýsluverkefni frá BÍ til undirstofnana atvinnuvegaráðuneytisins.

FA styður frumvarpið í umsögn sinni og segir ótækt að stjórnsýsluverkefni, sem fjármögnuð eru af skattfé, séu falin hagsmunasamtökum. Félagið fagnar því jafnframt að í frumvarpinu sé lagt til að fella niður svokallað verðskerðingargjald, í þágu einföldunar regluverks og minna skrifræðis. FA segist þeirrar skoðunar að taka mætti til hendinni mun rækilegar í millifærslufrumskógi landbúnaðarkerfisins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Matvælastofnun verði falið að safna og birta upplýsingar um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu. „FA bindur vonir við að það leiði til þess að upplýsingaöflunin verði vandaðri og miðlun upplýsinganna opnari og gegnsærri en verið hefur, á meðan það var hlutverk Bændasamtakanna að safna og miðla upplýsingunum,“ segir í umsögn FA.

Tekur mörg ár að auka framleiðni í nautakjötsframleiðslu
Í öðru lagi hefur FA skilað umsögn um frumvarp landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem ætlað er að rýmka fyrir innflutningi á erfðaefni holdanauta til að auka afkastagetu íslenska nautgripastofnsins. „Eitt markmið frumvarpsins er sagt að auka framleiðslu til að mæta skorti á nautakjöti á innanlandsmarkaði, en innlend framleiðsla hefur undanfarin ár hvergi nærri annað eftirspurn eftir nautakjöti,“ segir í umsögn félagsins. „FA leyfir sér að benda á að það mun taka mörg ár að auka framleiðslu með innflutningi erfðaefnis þannig að hún anni eftirspurn. Um fyrirsjáanlega framtíð mun þurfa að anna þörf markaðarins fyrir nautakjöt með sama hætti og síðustu ár; með innflutningi á nautakjöti. Þá skiptir máli að innlenda framleiðslan verði ekki varin á bak við múra tollverndar eins og raunin hefur orðið. Samkvæmt úttekt nefndar um tollamál í landbúnaði, sem skilaði skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýlega, nemur tollvernd á innfluttu nautakjöti um 26% af verði þess. Við slíkar aðstæður hefur innlend framleiðsla augljóslega ónóga samkeppni.“

Undanþága frá samkeppnisreglum afnumin
Þriðja málið er frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar, sem leggja til að undanþága mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum verði afnumin. FA styður þá breytingu eindregið í umsögn sinni og segir engin rök standa til þess að undanþiggja mjólkuriðnaðinn samkeppnisreglum, frekar en neina aðra atvinnugrein.

Umsögn FA um 694. mál

Umsögn FA um 643. mál

Umsögn FA um 292. mál

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning