Félag atvinnurekenda styður þingsályktunartillögu Hönnu Katrínar Friðriksson og fleiri þingmanna um frelsi á leigubílamarkaði. Í þingsályktunartillögunni er lagt til að samgönguráðherra verði falið að afnema hámarksfjölda atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs, fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna leigubifreiðamarkaðinn fyrir aukinni samkeppni.
Í umsögn FA segir að núverandi löggjöf um leigubifreiðar feli sér miklar aðgangshindranir á leigubifreiðamarkaði, sem einkum felist í svokallaðri stöðvarskyldu leigubílstjóra og hámarksfjölda atvinnuleyfa. „Engin rök standa til þess að viðhafa slíkar aðgangshindranir í einni atvinnugrein umfram aðrar. Með þeim er eingöngu verið að verja sérhagsmuni þröngs hóps, á kostnað mögulegra keppinauta, neytenda og samfélagsins í heild. Augljóst er að framboð á leigubifreiðum fylgir ekki eftirspurn; þannig hefur fjöldi leigubílaleyfa nánast staðið í stað undanfarin tíu ár, á sama tíma og ferðamönnum sem koma til landsins hefur fjölgað úr tæplega hálfri milljón á ári í 2,2 milljónir,“ segir FA.
Rifjað er upp að samkeppnisyfirvöld hafa lengi talið að núgildandi lög feli í sér samkeppnishindranir. Þannig gaf Samkeppniseftirlitið út álit árið 2007, þar sem samgönguráðherra var hvattur til að beita sér fyrir breytingum á lögum og reglum um leigubifreiðar sem hefðu að markmiði að skapa eðlilegt samkeppnisumhverfi á leigubifreiðamarkaði. „Enn hefur ekki verið brugðizt við þessu áliti Samkeppniseftirlitsins fremur en svo mörgum fleirum sem snúa að þeim ramma sem stjórnvöld búa samkeppni í atvinnulífinu,“ segir í umsögn FA.
Íslensk löggjöf um leigubifreiðar er um margt sambærileg norskri. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sendi norskum stjórnvöldum í fyrra rökstutt álit um að fjöldatakmarkanir og stöðvarskylda brjóti gegn ákvæðum EES-samningsins. ESA hefur nú hafið frumkvæðisathugun á íslenska leigubílamarkaðnum. „Yfirgnæfandi líkur eru á að niðurstaða stofnunarinnar verði sú sama hvað Ísland varðar og stjórnvöldum verði nauðugur einn kostur að breyta löggjöfinni. Engin ástæða er til að bíða enn eina ferðina eftir slíkri niðurstöðu, hvað þá dómi EFTA-dómstólsins,“ segir í umsögn FA.