FA styður mjólkurfrumvarp ráðherra

20.03.2017

Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu jákvæða umsögn um drög að frumvarpi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sem á að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Hvetur félagið til þess að frumvarpið verði flutt og samþykkt á Alþingi.

FA segir efni frumvarpsins til þess fallið að stuðla að aukinni samkeppni og miklum ábata neytenda. „Samkeppnislagabrot teljast almennt til refsiverðrar háttsemi. Um er að ræða athæfi sem samfélagið hefur talið svo ámælisvert að það sæti refsingu þeirra sem verða uppvísir að því. Það hefur því sætt langvarandi furðu að slík brot ákveðinna aðila séu undanþegin refsingu þessari enda algerlega á huldu hvernig afleiðingar þeirra og eðli eru í þessum tilfellum frábrugðin því sem almennt á við. Með umræddu frumvarpi er bætt úr þessum meinbug á núverandi lögum. Þar með er stuðlað að auknu jafnræði, aukinni samkeppni og bættri almennri réttarvitund,“ segir í umsögn FA.

Þar er jafnframt vikið að því að verðlagning mjólkurvara hafa undanfarna áratugi verið furðuleg. „Hefur þar verði á ákveðnum vörum verið haldið niðri með því að hækka verð á öðrum vörum, oftar en ekki þeim þar sem engar staðkvæmdarvörur eru til staðar. Þessi verðtilfærsla er sérstaklega óeðlileg og skaðleg fyrir neytendur og markaðinn í heild. Hún er auk þess ógagnsæ, gerræðisleg og stuðlar að verðmætasóun. Því ber því að fagna að með frumvarpinu sé undið ofan af þessu fyrirkomulagi. Þessi breyting mun eðlilega hafa það í för með sér að þær vörur sem áður voru undirverðlagðar muni hækka í verði og þær sem voru yfirverðlagðar muni lækka. Það er rétt. Mestu máli skiptir að verðlagning þessara vara taki mið af kostnaði við framleiðslu þeirra og að sumum neytendum verði ekki gert að bera kostnað annarra neytenda,“ segir í umsögn FA.

 

Umsögn FA um mjólkurfrumvarpið

Nýjar fréttir

Innskráning