Starfsmenn Félags atvinnurekenda og fulltrúar nokkurra aðildarfyrirtækja áttu í dag hádegisverðarfund með Aniu Thiemann, einum af yfirmönnum samkeppnisdeildar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og Páli Gunnari Pálssyni forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Thiemann er stödd hér á landi í boði Samkeppniseftirlitsins og kynnir fyrir stjórnvöldum og hagsmunasamtökum aðferðafræðina við svokallað samkeppnismat, sem OECD hefur unnið í ýmsum aðildarríkjum.
OECD hefur um árabil bent á mikilvægi þess fyrir efnahag ríkja að hugað sé að áhrifum laga, reglna og stjórnvaldsákvarðana á samkeppni. Í þessu efni hefur OECD mótað verklag við svokallað samkeppnismat (Competition Assessment Toolkit). Stjórnvöld geta beitt því til að efla samkeppni eða takmarka samkeppnishindranir sem stafað geta af lögum, reglum og stjórnvaldsfyrirmælum. Þetta verklag kemur um leið í veg fyrir óþarfa reglubyrði á atvinnulíf, en slík reglubyrði felur alla jafna í sér samkeppnishindranir.
Ísland aftarlega á merinni
Ania Thiemann hefur á síðustu árum aðstoðað stjórnvöld ríkja við að tileinka sér aðferðafræði samkeppnismats og stýrt úttektum á tilteknum mörkuðum einstakra aðildarríkja. Í slíkum úttektum er aðferðafræði OECD beitt til að koma auga á samkeppnishindranir sem leiða af gildandi lögum og reglum, meta áhrif þeirra á efnahag viðkomandi lands og leggja til breytingar. Nú um stundir stýrir hún slíku verkefni í Portúgal.
Thiemann fór á fundinum yfir það að bæði væri hægt að nota samkeppnismatið við undirbúning nýrrar löggjafar til að koma í veg fyrir að hún yki samkeppnishindranir og eins væri hægt að beina sjónum að laga- og regluumhverfi í tilteknum geirum eða í kringum framleiðslu og sölu tiltekinna vara og greina hvort það fæli í sér óþarfar samkeppnishindranir. Í máli hennar kom fram að samkvæmt úttektum OECD væri Ísland að mörgu leyti aftarlega á merinni hvað varðaði skilvirkni regluverks og margar samkeppnishindranir í íslenskri löggjöf.
Stjórn FA hefur mótað þá afstöðu að styðja tillögur Samkeppniseftirlitsins um að tekið verði upp staðlað samkeppnismat hér á landi. FA hyggst fylgja málinu eftir gagnvart nýrri ríkisstjórn.