FA telur drög að áfengisfrumvarpi fela í sér mismunun – vill víðtækari endurskoðun

12.10.2020

Félag atvinnurekenda lýsir sig fylgjandi markmiðunum með drögum að frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingar á áfengislögum, m.a. um að heimila áfengisframleiðendum sölu áfengis í neytendaumbúðum á framleiðslustað. Félagið telur drögin hins vegar verulega gölluð og ítrekar tillögu sína um heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi áfengisframleiðslu og -verslunar á Íslandi, þ.m.t. sölufyrirkomulagi, reglum um auglýsingar og markaðssetningu, fjárhæð áfengisgjalda og fyrirkomulagi innheimtu þeirra.

Framleiðendum mismunað
Í frumvarpsdrögunum er vísað til þess að mörg brugghús hafi byggt upp ferðaþjónustu í kringum starfsemi sína og það skjóti skökku við að gestir þeirra geti ekki keypt áfengi í neytendaumbúðum á staðnum í smásölu. Í frumvarpi ráðherra er lagt til að innlendum brugghúsum sem framleiða minna en 500.000 lítra á ári af áfengu öli undir 12% að styrkleika verði heimilað að selja vörur sínar í smásölu í neytendaumbúðum á framleiðslustað. FA gerir ýmsar athugasemdir við þessar takmarkanir, sem félagið telur fela í sér ýmiss konar mismunun:

  • FA bendir á að eigi að ná markmiði ráðherra um að tryggja jafnræði í verslun, gangi ekki að gefa eingöngu innlendum framleiðendum heimild til að selja áfengi í neytendaumbúðum á framleiðslustað, heldur ættu innflytjendur sambærilegra drykkja frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins þá að jafnframt að fá undanþágu frá einkarétti Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis. Að öðrum kosti væri verið að leggja hindranir á sölu vara frá áfengisframleiðendum í öðrum EES-ríkjum umfram sölu á vörum innlendra áfengisframleiðenda, sem væri brot á jafnræðisreglu EES-samningsins. FA vísar m.a. til niðurstaðna sænskra stjórnvalda um þetta efni og telur dómsmálaráðuneytinu ekki stætt á öðru en að bera lagasetningaráformin undir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
  • Félagið gagnrýnir að 500.000 lítra hámarkið sé sett fram án rökstuðnings, en það útilokar stærri brugghús frá smásöluheimildinni, sem sum hver geta ekki talist stórir vinnustaðir og eru rekin á landsbyggðinni.
  • FA bendir á að stærri brugghús hafi með sama hætti byggt upp ferðaþjónustu í kringum rekstur sinn og þau smærri og vandséð sé með hvaða rökum eigi að mismuna innlendum framleiðendum að þessu leyti.
  • FA vekur athygli á að innlendir framleiðendur víða um land framleiða sterka drykki og hafa kynnt þá fyrir gestum sínum með sama hætti og framleiðendur áfengs öls. Engin rök séu færð fyrir því í frumvarpsdrögunum af hverju þessir framleiðendur eigi ekki að fá leyti til að selja vörur sínar á framleiðslustað með sama hætti og þeir sem brugga öl, þar standi aðeins að það sé „ekki tilætlan frumvarpsins að heimila smásölu sterks áfengis á framleiðslustað.“ FA bendir á að það sé útbreidd vitneskja að áhrif neyslu áfengs öls á t.d. lýðheilsu, umferðaröryggi og almannareglu séu síst vægari en af neyslu sterkari drykkja og því engin rök sjáanleg fyrir þessari mismunun.

Engin greining á áhrifum á ÁTVR
Í frumvarpsdrögunum er einnig að finna tillögur um að heimila netverslun með áfengi, en sá hluti draganna var birtur í samráðsgáttinni í janúar síðastliðnum. FA ítrekar þær athugasemdir sem þá komu fram af hálfu félagsins við þann hluta málsins og telur að ekki hafi verið að neinu marki komið til móts við þá gagnrýni og ábendingar.

Þannig sé því enn ranglega haldið fram í greinargerð frumvarpsdraganna að samþykkt málsins myndi ekki hrófla við hlutverki ÁTVR og engin greining sé í skjalinu á áhrifum lagabreytinga á rekstur stofnunarinnar. FA bendir m.a. á að innlendar og alþjóðlegar verslanakeðjur séu líklegar til að koma inn á áfengismarkaðinn, verði vefverslun heimiluð, og sala í ÁTVR muni minnka hratt, auk þess sem stofnunin verði þá komin í beina samkeppni við einkaaðila. „Það hver afdrif þeirrar stofnunar verða og hvernig henni verður gert að bregðast við breytingum á rekstrarumhverfinu mun hafa mikil áhrif á samkeppni á áfengismarkaði. Þessi skortur á faglegri greiningu á áhrifum frumvarpsins dregur því miður mjög úr trúverðugleika málsins,“ segir í umsögn FA.

Félagið ítrekar að gera þurfi heildarendurskoðun á áfengismarkaðnum, með viðskiptafrelsi að leiðarljósi. „Markmið ráðherra um aukið jafnræði og viðskiptafrelsi eru góð og gild, en eins og FA hefur ítrekað bent á, er mikil hætta á að með því að gera breytingar á markaðnum í smábútum og með hálfkáki eins og lagt er til í þessu frumvarpi verði til nýtt ójafnræði og samkeppnishindranir.“

Umsögn FA um frumvarpsdrögin

Nýjar fréttir

31. október 2024

Innskráning