Félag atvinnurekenda hefur skilað umsögn sinni um frumvarp til laga um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum þar sem til stendur að skýra lagaumhverfið í tengslum við heimildir fyrirtækja og stofnana til að veita og þá að sama skapi krefjast greiðslufrests í verslunarviðskiptum. FA fagnar frumvarpinu og telur það fela í sér réttarbót, sérstaklega í þeim tilvikum þegar fyrirtæki semja við opinberar stofnanir.
Frumvarpið, sem er nú endurflutt frá síðasta þingi, gerir hins vegar ekki ráð fyrir að haggað sé núverandi fyrirkomulagi í lögum um samningsveð, nr. 75/1997 sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki sem veita greiðslufrest vegna sölu á vörum sem ætlaðar eru til endursölu geti tryggt eignarrétt sinn á umræddri vöru þar til kaupverðið er að fullu greitt. Félag atvinnurekenda telur að lykilforsenda þess að fyrirtæki, sérstaklega lítil og meðalstór, treysti sér til að veita greiðslufresti í slíkum tilvikum sé að hefðbundnir eignarréttarfyrirvarar haldi þegar kaupendur vörunnar greiða ekki kaupverðið eða fara í þrot. Þá renna ógreiddar vörur á lager gjaldþrota félags til dæmis aftur til birgjanna sem eiga þær.
Sjá nánar um afstöðu félagsins að þessu leyti í umsögn FA.