FA vill láta reyna á lögmæti búvörusamninga – Hæstiréttur telur samninga ekki hafa tekið gildi

10.06.2016

IMG_4603Félag atvinnurekenda hefur undanfarna daga látið á það reyna hvort hægt sé að hnekkja búvörusamningi ríkisins og Bændasamtaka Íslands fyrir dómstólum áður en Alþingi afgreiðir frumvarp um búvörusamninga. FA telur samninginn um starfsskilyrði nautgriparæktar ólögmætan, eins og rökstutt hefur verið í umsögn félagsins til atvinnuveganefndar Alþingis.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í byrjun mánaðarins beiðni FA um flýtimeðferð og að gefin yrði út stefna á hendur landbúnaðarráðherra og Bændasamtökunum. Hæstiréttur hefur í dag staðfest þann úrskurð og fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að þar sem frumvarp um búvörusamninga hafi ekki verið afgreitt og óvíst sé um afdrif þess skuli ekki heimila flýtimeðferð í málinu. Samningarnir séu gerðir með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að það séu að sjálfsögðu vonbrigði að dómstólar heimili ekki flýtimeðferð í málinu, sem varði mikla hagsmuni margra fyrirtækja og alls almennings. Hins vegar þýði niðurstaða Hæstaréttar að það sé ekki rétt sem formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, hafi haldið fram, að ekki sé hægt að gera breytingar á búvörusamningnum sjálfum, hann standi.

Þingið getur lagt fyrir framkvæmdavaldið að semja upp á nýtt
„Hæstiréttur Íslands telur samninginn ekki hafa öðlast gildi. Þar með er þinginu í lófa lagið að leggja fyrir framkvæmdavaldið að semja upp á nýtt og lagfæra stórfellda ágalla á búvörusamningunum. Til dæmis hlýtur að þurfa að mæta alvarlegum athugasemdum Samkeppniseftirlitsins. Það er gagnlegt að fá fram þá afstöðu Hæstaréttar að hér stöndum við ekki frammi fyrir orðnum hlut,“ segir Ólafur.

„Við hvetjum Alþingi áfram til að láta hvorki frumvarpið né samningana sjálfa standa án breytinga. FA áskilur sér síðan allan rétt til að skoða það, fari svo að Alþingi samþykki frumvarpið um búvörusamninga, hvort ríkinu og Bændasamtökunum verði stefnt fyrir dóm vegna málsins,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

Innskráning