Færi tollalækkun í vasa verslunarinnar?

03.03.2015

Innfluttur kjúklingurÓlafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hefur svarað bæði í Bylgjunni og RÚV þeim ásökunum formanns Bændasamtakanna að talsmenn verslunarinnar beiti blekkingum í umræðunni um tollvernd búvara. Sindri Sigurgeirsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafa haldið því fram að verslunin taki of mikið til sín af verði innfluttra vara og ekki megi draga úr tollvernd á búvörum.

Á meðal þess sem fram hefur komið í málflutningi FA er eftirfarandi:

  • Formaður Bændasamtakanna segir að þrátt fyrir aukinn innflutning á búvörum hafi verð á markaðnum ekki lækkað. Að sjálfsögðu ekki, FA hefur einmitt bent á að tollar á innflutningnum séu svo háir að hann veiti innlendri framleiðslu enga raunverulega samkeppni. Tollvernd er um helmingur af verði innflutts kjúklingakjöts, þriðjungur af verði svínakjöts og fjórðungur af verði nautakjöts.
  • Það er algengt viðkvæði þegar knúið er á um lækkun skatta og gjalda að verslunin muni ekki skila þeim lækkunum til neytenda. Reynslan af afnámi vörugjalda um áramótin sýnir hins vegar vel að slík lækkun skilar sér út í verðlagið, í sumum tilvikum gerði hún það meira að segja áður en lögin tóku gildi. Það er hörð samkeppni á matvörumarkaði og ríkt aðhald frá neytendum, meðal annars í formi verðkannana. Við slíkar aðstæður munu tollalækkanir skila sér að fullu í vasa neytenda.
  • Sindri Sigurgeirsson hefur haldið því fram að skýrsla Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkað frá 2012 sýni að verslunin leggi meira á innflutta búvöru en innlenda. Það er bein rangtúlkun á efni skýrslunnar; þar eru engar niðurstöður um mismunandi álagningu á innlendri vöru og innflutningi enda var það alls ekki viðfangsefni skýrslunnar. Í niðurstöðum skýrslunnar hvetur Samkeppniseftirlitið stjórnvöld hins vegar til að hætta að hunsa tillögur stofnunarinnar um að auka samkeppni í sölu og vinnslu landbúnaðarafurða, meðal annars með því að draga verulega úr innflutningshindrunum. Vísað er til fordæmisins frá því tollar voru lækkaðir á grænmeti, en það var gert einhliða, ekki með samningum við önnur ríki um gagnkvæmar tollalækkanir, sem forsætisráðherra segir að sé eina leiðin til að lækka tolla.
  • FA leggur áherslu á að verslunin og landbúnaðurinn eru atvinnugreinar sem þurfa hvor á annarri að halda. Það eru hins vegar engin rök fyrir því að landbúnaðurinn njóti, einn framleiðslugreina, ríkulegrar verndar fyrir alþjóðlegri samkeppni.

Ólafur Stephensen og Sindri Sigurgeirsson ræða innflutningstolla á Bylgjunni

Ólafur Stephensen hafnar ásökunum um að verslunin beiti blekkingum – fréttir RÚV

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning