Fallið frá kröfunni um lóðrétt strikamerki

01.06.2017
Þegar ný reglugerð tekur gildi 1. september verða bæði lárétt og lóðrétt strikamerki leyfileg á drykkjarumbúðum.

Félag atvinnurekenda hefur fengið staðfest hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að ný reglugerð um einnota drykkjarvöruumbúðir muni ekki taka gildi í dag, 1. júní, eins og áformað var, heldur muni gildistakan frestast til 1. september. Þá verði fallið frá þeirri kröfu, sem gerð var í reglugerðinni, að strikamerki á drykkjarvöruumbúðum skuli eingöngu vera lóðrétt, en ekki lárétt.

FA hafði áður bent á að krafan um lóðrétt strikamerki væri allsendis ónauðsynleg, byggi til viðskiptahindrun og myndi setja stóran hluta drykkjarvöruinnflutnings til landsins í uppnám. Í bréfi sem ráðuneytinu var sent 31. mars síðastliðinn var rökstutt að líklega yrði afleiðingin hækkun verðs til neytenda. Erlend samtök áfengisframleiðenda, á borð við Spirits Europe og Scottish Whisky Association, höfðu einnig mótmælt reglunum við íslensk stjórnvöld.

„Það er fagnaðarefni að ráðuneytið hafi tekið rökum og brugðist við með þessum hætti. Þarna voru augljóslega gerð mistök, sem nú hafa verið leiðrétt,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það má hins vegar ýmislegt af þessu máli læra um mikilvægi þess að stjórnsýslan hafi náið samráð við þá sem til þekkja í atvinnulífinu þegar nýjar reglur eru smíðaðar.“

 

 

Nýjar fréttir

Innskráning